Innlent

Vegtollar ef til vill eina leiðin

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ragnheiður Hergeirsdóttir segir að aðalatriðið sé að fólki verði ekki mismunað eftir landshlutum.
Ragnheiður Hergeirsdóttir segir að aðalatriðið sé að fólki verði ekki mismunað eftir landshlutum.
„Auðvitað finnst manni vegtollar ekki vera spennandi kostur en ef það getur orðið til þess að það verði hægt að gera vegina öruggari og ljúka þessum framkvæmdum að þá má vera að það sé ekki önnur leið," segir Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri á Selfossi.

Hugmyndir hafa verið ræddar á meðal stjórnmálamanna um að fjármagna nýjar vegaframkvæmdir með vegtollum sem yrðu um 200 krónur, að því er fram kom í fréttum RÚV í gær. Þetta hefur meðal annars verið rætt í þingflokkum þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi.

Um yrði að ræða vegtolla á helstu stofnæðir inn í höfuðborgina. Á meðal þeirra Reykjanesbraut, Vesturlandsvegur og Suðurlandsvegur. Bæjarstjórinn á Selfossi segir að ef til vill séu ekki aðrar leiðir færar til að fjármagna framkvæmdir. Aðalatriðið sé þá að fólki verði ekki mismunað eftir landshlutum. Mjög mikilvægt sé að ráðist verði í framkvæmdir við Suðurlandsveg og nýja Ölfusárbrú.

Ragnheiður segir að samgönguráðherra hafi ekki kynnt hugmyndirnar formlega en málið hafi vissulega komið upp í umræðunni hjá samgönguráðherra. Mikilvægt sé að málið verði kynnt ítarlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×