Innlent

Veitingamenn krefjast bóta

grétar ingi berndsen
grétar ingi berndsen
Veitingamenn í nektargeiranum ætla að krefjast skaðabóta af ríkinu vegna nýrra laga sem banna nektardans. Davíð Steingrímsson, sem rekur Vegas, segir engan vafa á þessu: „Ég hef ekki brotið nein lög eða reglur og hef fjárfest og stólað á að geta rekið staðinn til 2013, þegar gildandi rekstrarleyfi rennur út.“ Nýju lögin taka gildi 1. júlí.

Grétar Ingi Berndsen, sem rekur Óðal, er á sama máli: „Ég er með leyfi til loka árs 2011 sem er tekið úr sambandi og væntanlega verða bætur fyrir það.“

Jafnframt íhuga þeir báðir hvort kæra skuli þingkonuna Steinunni Valdísi Óskarsdóttur fyrir meiðyrði, en hún hefur meðal annars sagt að rekstri nektarstaða fylgi jafnan skipulögð glæpastarfsemi og mansal.

Ásgeir Davíðsson, eigandi veitingastaðarins Goldfinger, hefur ekki ákveðið hvort hann fer í skaðabótamál gegn ríkinu, en telur sinn skaða geta numið allt að 800 milljónum króna.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis, segir að tvær allsherjarnefndir hafi skoðað málið og allir þingmenn séu meira og minna sammála um það: „Þingið setur oft lög sem breyta því sem var áður. Ef menn telja sig eiga rétt á skaðabótum þá verða þeir bara að láta reyna á það.“ Farið hafi verið rækilega yfir málið með tilliti til skaðabótaskyldu. - kóþ


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×