Lífið

Airwaves í hlýjan faðm hins opinbera

Nýtt fólk í brúnni. Anna Hildur og hennar fólk hjá Útón tekur við rekstri Iceland Airwaves-tónlistarhátíðarinnar af Þorsteini Stephensen. Ráðinn verður framkvæmdastjóri hátíðarinnar á næstu tveimur vikum.
Nýtt fólk í brúnni. Anna Hildur og hennar fólk hjá Útón tekur við rekstri Iceland Airwaves-tónlistarhátíðarinnar af Þorsteini Stephensen. Ráðinn verður framkvæmdastjóri hátíðarinnar á næstu tveimur vikum.

„Ég er ánægður með þessa niðurstöðu. Ég vona að hátíðinni sé fundinn réttur farvegur með Útón,“ segir Þorsteinn Stephensen, framkvæmdastjóri Hr. Örlygs. Í gær var tilkynnt að Icelandair og Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, Útón, hefðu skrifað undir samning þess efnis að Útón sjái um rekstur tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves næstu fimm árin. Þar með kveður Þorsteinn hátíðina sem hann kom á fót fyrir ellefu árum og hefur komið að skipulagningu síðan. Í samkomulaginu felst þó að Þorsteinn verði nýjum rekstraraðila innan handar næstu tvö árin.

Þorsteinn segir að rekstur Airwaves hafi gengið erfiðlega síðustu tvö ár. Skipulagning hátíðarinnar sé tímafrek vinna sem hafi ekki staðið undir sér. Hann segist telja að hátíðin þurfi á auknum styrkjum að halda til að lifa áfram og nýjum rekstraraðila gangi kannski betur að afla þeirra. „Airwaves er sterkt vörumerki og ég vona að það takist að halda anda hátíðarinnar áfram,“ segir hann.

Anna Hildur Hildibrandsdóttir, framkvæmdastjóri Útón, segir að hún muni ekki skipta sér af daglegum rekstri Airwaves. Ráðinn verði nýr framkvæmdastjóri í hálft starf til að skipuleggja næstu hátíð. Svo verði málin skoðuð betur. Hún segir að strax verði auglýst eftir framkvæmdastjóra.

„Það er búið að vinna töluverða vinnu og ég býst við að við tilkynnum fljótlega fyrstu tónlistarmennina sem koma fram á hátíðinni.“ Anna Hildur hafnar því að með þessu sé verið að ríkisvæða tónlistargeirann.

„Þetta verður til þess að breikka samstöðuna og styrkja stoðir hátíðarinnar. Það er bara einhver mýta að þetta sé ríkisvæðing.“- hdm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.