Innlent

Minnihluti vill slaka á umhverfiskröfum

Meirihluti þeirra sem afstöðu tóku í skoðanakönnun Fréttablaðsins er andsnúinn því að slaka á kröfum um umhverfisvernd til að greiða fyrir nýjum stóriðjuframkvæmdum.

Alls sögðust 57,7 prósent þeirra sem afstöðu tóku andsnúin slíkum tilslökunum, en 42,3 prósent voru þeim fylgjandi. Könnunin var gerð síðastliðið fimmtudagskvöld.

Umtalsverður munur er á afstöðu kynjanna til spurningarinnar. Helmingur þeirra karla sem afstöðu tóku vildi slaka á kröfum. Mun færri konur voru þeirrar skoðunar, um 34 prósent þeirra sem afstöðu tóku.

Mikill munur var á afstöðu þeirra sem þátt tóku í könnuninni eftir því hvaða flokk viðkomandi sögðust myndu kjósa ef gengið yrði til þingkosninga nú.

Tveir af hverjum þremur sem sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn yrði gengið til þingkosninga nú, 67 prósent þeirra sem afstöðu tóku, vildu slaka á kröfum um umhverfisvernd til að greiða fyrir nýjum stórframkvæmdum.

Alls 62 prósent stuðningsmanna Framsóknarflokksins og 69 prósent þeirra sem sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn vildu slaka á kröfum um umhverfisvernd.

Afstaða stuðningsmanna stjórnarflokkanna var á annan veg. Einn afhverjum fimm, um 21 prósent þeirra sem afstöðu tóku, sögðust styðja tilslakanir en fjórir af fimm, rúm 79 prósent, voru þeim andsnúnir.

Aðeins 12 prósent stuðningsmanna Vinstri grænna voru fylgjandi tilslökunum, en 29 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar.

Tæplega 40 prósent þeirra sem þátt tóku í könnun Fréttablaðsins vildu ekki gefa upp stuðning við stjórnmálaflokk, voru ýmist óákveðin, vildu ekki svara eða sögðust myndu skila auðu eða ekki kjósa yrði gengið til þingkosninga nú. Ríflega 38 prósent þessa hóps sögðust fylgjandi því að slaka á kröfum um umhverfisvernd, en tæplega 62 prósent voru því andvíg.

Ekki reyndist tölfræðilega marktækt að reikna afstöðu stuðningsmanna smærri framboða.

Hringt var í 800 manns fimmtudaginn 18. mars. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.

Spurt var: Telur þú að slaka eigi á kröfum um umhverfisvernd til að greiða fyrir nýjum stóriðjuframkvæmdum? Alls tóku 86,3 prósent aðspurðra afstöðu til spurningarinnar.brjann@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×