Innlent

Meirihluti vill kjósa um framtíð kvótakerfisins

Auðlind Erfitt er að skilgreina nákvæmlega hvað á að kjósa um í þjóðaratkvæðagreiðslu, að mati Friðriks J. Arngrímssonar, framkvæmdastjóra LÍÚ.
Fréttablaðið/Jón Sigurður
Auðlind Erfitt er að skilgreina nákvæmlega hvað á að kjósa um í þjóðaratkvæðagreiðslu, að mati Friðriks J. Arngrímssonar, framkvæmdastjóra LÍÚ. Fréttablaðið/Jón Sigurður

Meirihluti þeirra sem afstöðu tóku í skoðanakönnun Fréttablaðsins vill að þjóðin fái að greiða atkvæði um framtíðarskipulag íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Alls sögðust 60,3 prósent þeirra sem afstöðu tóku vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta umdeilda mál, en 39,7 prósent vildu ekki atkvæðagreiðslu.

Mikill munur var á afstöðu þátttakenda eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Um 72 prósent þeirra sem sögðust styðja Samfylkinguna eða Vinstri græna voru fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð kvótakerfisins en 28 prósent voru því andvíg. Lítill munur var á afstöðu stuðningsmanna flokkanna tveggja.

Þá sögðust 46 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál, en 54 prósent vildu ekki að málið færi fyrir þjóðaratkvæði. Óverulegur munur var á afstöðu stuðningsmanna flokkanna tveggja.

Um 40 prósent þeirra sem þátt tóku í könnuninni vildu ekki gefa upp stuðning við ákveðinn stjórnmálaflokk, eða voru óviss hvaða flokk þau myndu styðja. Af þessum hópi sögðust ríflega 62 prósent fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu, en 38 prósent voru andvíg.

„Þetta sýnir að vilji þjóðarinnar er að þetta mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin vill fá að ráða hver verða örlög þessa kerfis,“ segir Þórður Már Jónsson, formaður Þjóðareignar, samtaka um auðlindir í almannaþágu. Samtökin hafa barist fyrir því að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Ef menn ætla í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu er nauðsynlegt að skilgreina nákvæmlega hvað á að kjósa um,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna. Málið sé afar flókið og erfitt að setja upp skýra kosti til að kjósa á milli.

„Almennt tel ég að það væri mjög gott ef við gætum innleitt þjóðaratkvæðagreiðslur í meira mæli, og þá er í sjálfu sér ekkert undanskilið. Svo hefur það bara sínar afleiðingar sem ákveðið er, hvort sem er af þingi eða þjóð,“ segir Friðrik.

Óverulegur munur var á svörum þátttakenda í könnuninni eftir kynjum. Tæplega 59 prósent karla en 62 prósent kvenna vildu þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Hringt var í 800 manns fimmtudaginn 18. mars. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Vilt þú að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipulag fiskveiðistjórnunarkerfisins? Alls tóku 86,9 prósent afstöðu til spurningarinnar.

brjann@frettabladid.is

Þórður Már Jónsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×