Innlent

Fylgi stjórnarflokka fellur

Sjálfstæðisflokkurinn er á ný langstærsti stjórnmálaflokkur landsins, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem gerð var í gærkvöldi.

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur stuðnings 40,3 prósenta þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni og fengi 27 þingmenn kjörna yrðu þetta niðurstöður kosninga. Flokkurinn fékk 23,7 prósent atkvæða í þingkosningum 25. apríl í fyrra, og 16 þingmenn kjörna. Flokkurinn hefur ekki mælst með svo mikið fylgi í könnunum Fréttablaðsins frá því 23. febrúar 2008, þegar 40,1 prósent studdi flokkinn.

Stjórnarflokkarnir tapa miklu fylgi frá síðustu könnun Fréttablaðsins. Samfylkingin nýtur stuðnings 23,1 prósents kjósenda, og Vinstri græn 20,6 prósenta. Alls sögðust 43,7 prósent aðspurðra myndu kjósa annan hvorn stjórnarflokkanna, sem fengju samtals 28 þingmenn samkvæmt könnuninni og myndu þar með missa þingmeirihlutann.

Þegar spurt var um stuðning við ríkisstjórnina sögðust 38,9 prósent þeirra sem afstöðu tóku styðja stjórnina, en 61,1 prósent sagðist ekki styðja stjórnina. Konur eru líklegri til að styðja stjórnina en karlar, 40,5 prósent kvenna styðja stjórnina en 37,3 prósent karla.

Framsóknarflokkurinn bætir ekki við sig fylgi þrátt fyrir mikið fylgistap stjórnarinnar. Flokkurinn mælist með stuðning 13,3 prósenta þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni. Borgara­hreyfingin nýtur stuðnings 2,1 prósents kjósenda, og 0,6 prósent sögðust myndu kjósa Hreyfinguna. - bj /





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×