Viðskipti innlent

Steingrímur: Sparisjóðir verði á félagslegum grunni

Ákvarðanir um endurreisn sparisjóðanna verða kynntar á næstu dögum. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra boðar að sparisjóðirnir verði endurreistir með sterka fótfestu í byggðunum og þeir verði reknir á félagslegum grundvelli.

Meðan endurreisn stóru bankanna er langt komin, eftir hrunið mikla haustið 2008, hefur gengið hægar að móta framtíð sparisjóðanna. Þeir fóru flestir einnig mjög illa út úr hruninu og raunar aðeins tveir sem stóðu það alveg af sér; Sparisjóður Suður-Þingeyinga og Sparisjóður Strandamanna.

Unnið hefur verið að endurreisn sparisjóðanna undir forystu Seðlabankans og fjármálaráðuneytis og vonast menn nú til að þau mál skýrist á allra næstu dögum, að sögn Guðjóns Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sparisjóða. Staða þeirra er afar misjöfn en einna flóknust er hún hjá Byr og Sparisjóði Keflavíkur og líklegt að lengri tíma geti tekið að fá niðurstöðu um þeirra framtíð.

Við endurreisnina má telja líklegt að farin verði blönduð leið þannig að skuldum sparisjóðanna við Seðlabankann verði að hluta breytt í stofnfé, hluti verð ný lán eða víkjandi lán og að einhver hluti skuldanna verði afskrifaður. Á móti þurfa stofnfjáreigendur að sætta sig við verulega niðurfærslu stofnfjár, jafnvel 80-90 prósent.

Fjármálaráðherrann, Steingrímur J. Sigfússon, sér verkefnið þannig að reynt verði að tryggja að til verði sparisjóðakeðja sem hluti af landslaginu í fjármálaþjónustu. Hann leggi áherslu á að það verði þá eiginlegir sparisjóðir með sterka fótfestu í byggðunum og reknir á þeim félagslega grunni sem sparissjóðir eigi að vera reknir á. "Og þeir lendi aldrei aftur í ógæfu af því tagi sem græðgisvæðingarleiðangurinn var fyrir sparisjóðina," segir Steingrímur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×