Innlent

Skemmdu bíla Pólverja á Akranesi

Fimm bílar í eigu Pólverja voru skemmdir á Akranesi í fyrrinótt.
Fimm bílar í eigu Pólverja voru skemmdir á Akranesi í fyrrinótt.

Fimm bílar, allir í eigu Pólverja, voru skemmdir á Akranesi í fyrrinótt. Stungið var á dekk fjögurra bílanna og lakkið rispað á þeim fimmta. Bílunum var lagt víða um bæinn og því ekki talið að um handahófskenndan glæp sé að ræða.

Lögreglan á Akranesi hefur ekki áður orðið vör við lögbrot sem þessi gegn Pólverjum í bænum og hvetur þá sem vita hver eða hverjir frömdu skemmdarverkin að hafa samband í síma 444 0111.

Talsverður erill var á Akranesi í fyrrinótt. Auk skemmdarverkanna var karlmaður handtekinn á dansleik á skemmtistaðnum Breiðinni eftir að hann braut glas á höfði annars manns. Árásarmaðurinn var fluttur í fangageymslu en gert var að sárum fórnarlambsins á sjúkrahúsi.

Þá voru þrír teknir höndum, grunaðir um fíkniefnabrot. Á tveimur mannanna fundust fíkniefni. Lögreglumenn stöðvuðu einnig ökumann sem var ölvaður og sviptu hann ökuleyfinu samstundis. - fb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×