Lífið

Starfsfólk MTV sýnir FM Belfast áhuga

fm belfast Lóa Hjálmtýsdóttir og Árni Hlöðversson úr hljómsveitinni FM Belfast vöktu mikla athygli á tónleikum sínum í London.  fréttablaðið/anton
fm belfast Lóa Hjálmtýsdóttir og Árni Hlöðversson úr hljómsveitinni FM Belfast vöktu mikla athygli á tónleikum sínum í London. fréttablaðið/anton

Starfsmenn virtra fjölmiðla á borð við MTV, NME, Clash Magazine og Daily Mail voru viðstaddir tónleika hljómsveitarinnar FM Belfast í London á þriðjudagskvöld.

„Þetta var sambland af partýliði og bransaliði. Þarna var aðallega pressan en samt einhverjir aðilar frá festivölum í Bretlandi,“ segir Róbert Aron Magnússon, sem kom að skipulagningu tónleikanna.

„Þarna voru blaðamenn að tékka á þeim og skrifa dóma um tónleikana,“ segir hann og bætir við að starfsmenn MTV hafi verið mjög spenntir fyrir hljómsveitinni. „Þetta var þrusustemning og svakafjör. Ég held að þau [FM Belfast] hafi verið rosaánægð. Þetta er flottur tónleikastaður sem þessi bönd nota yfirleitt til að koma ferlinum sínum af stað.“

Tónleikarnir fóru fram á hinum þrjú hundruð manna stað Hoxton Square Bar and Kitchen. Þar hafa að undanförnu spilað hljómsveitir á borð við We Are Scientists og Mumford and Sons og er staðurinn vinsæll meðal sveita sem hafa þegar slegið í gegn. Hópur Íslendinga sem er búsettur í London mætti á tónleikana og að sjálfsögðu tók hann virkan þátt í að klappa sveitina upp.

FM Belfast hefur verið á tveggja vikna tónleikaferð um Evrópu og lýkur henni í Ósló á laugardaginn. Hljómsveitin hefur þegar verið bókuð á Hróarskelduhátíðina í byrjun júlí ásamt íslensku þungarokkurunum í Sólstöfum.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.