Viðskipti innlent

Varasamt að færa féð úr Englandsbanka

Breski seðlabankinn Á þriðja hundrað milljarðar króna í eigu bús Landsbanka Íslands eru geymdir á lágvaxtareikningi í breska seðlabankanum. Nordicphotos/afp
Breski seðlabankinn Á þriðja hundrað milljarðar króna í eigu bús Landsbanka Íslands eru geymdir á lágvaxtareikningi í breska seðlabankanum. Nordicphotos/afp

Þrotabú Landsbankans á háa fjárhæð, jafnvel 220 milljarða króna, á reikningi í Bank of England sem er seðlabanki Englands. Vextir á reikningnum eru mjög lágir eins og jafnan er með reikninga í seðlabönkum. Peningarnir eru afborganir af útlánum Landsbankans.

Ástæða þess að peningarnir eru geymdir við jafn kröpp kjör og raun ber vitni er fyrst og fremst sú að skilanefnd Landsbankans hefur metið mjög áhættusamt að færa þá til ávöxtunar í viðskiptabönkum í Englandi.

„Flestir stærri bankar í Englandi, sem og alþjóðlegu bankarnir sem þar starfa, hafa gert kröfur á Landsbankann. Það er því varasamt af okkar hálfu að færa féð til banka sem gæti fryst það á móti sínum kröfum," segir Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndarinnar.

Þó að kröfur banka í bú Landsbankans séu metnar almennar og ólíklegt talið að þær fáist greiddar gætu bankarnir hæglega ákveðið að frysta féð þar til endanlega yrði skorið úr um lögmæti krafna þeirra. Slíkt ferli gæti tekið nokkur ár.

Páll segir leiða leitað til að koma peningunum á hagstæðari reikninga.

„Við höfum unnið að því að reyna að finna traustar og áhættulitlar leiðir til að fá hærri vexti og það getur vel verið að slík leið finnist á næstu mánuðum. En fram til þessa hafa menn ekki talið sig hafa nægilega fast land undir fótum."

En fleira spilar inn í. Í framhaldi bankahrunsins í október 2008 upphófust flóknar samningaviðræður við bresk yfirvöld um meðferð eigna og skulda Landsbankans í Lundúnum. Kröfðust Bretarnir meðal annars þess að taka yfir verðmæt lánasöfn bankans. Úr varð að Landsbankinn hélt sínu gegn því að féð yrði geymt tímabundið í Englandsbanka.

Icesave-viðræðurnar hafa einnig haft sitt að segja og valdið tortryggni milli manna.

Páll segir að hvað sem öðrum málum líði hafi skilanefnd Landsbankans forræði yfir peningunum. Áhættan á frystingu auk viðkvæmra samskipta milli landanna hafi ráðið því að til þessa hafi ekki verið ástæða til að taka stór skref í að hreyfa þessa fjármuni til.

bjorn@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×