Innlent

Stjórnarandstaðan kom í veg fyrir nýtt Icesave-tilboð í kvöld

Tilboðið sem átti að leggja fyrir hollensku og bresku samninganefndirnar í kvöld var ekki lagt fram vegna þess að stjórnarandstaðan lagðist gegn því. Þeim þótti tilboðið bæði lélegt og vanhugsað.

Meðal skilyrða í samningaviðræðunum er samstaða stjórnar og stjórnarandstöðunnar hér á landi. Stjórnarandstaðan var ekki sátt við tilboðið sem varð til þess að það var ekki lagt fyrir erlendu samninganefndirnar.

Samkvæmt heimildum Vísis þá stóð til að gera annað tilboð um helgina en stjórnarandstaðan fékk klukkustund til þess að fara yfir það áður en það átti að leggja það fyrir samninganefndir Hollendinga og Breta. Stjórnarandstaðan sætti sig ekki við það og því var fallið frá að senda tilboðið.

Halda átti símafund á milli íslensku sendinefndarinnar og formanna þingflokkanna í kvöld en því var aflýst. Vonir standa til að sá fundur geti orðið í fyrramálið.

Ekki er ljóst hver staðan er í samningaviðræðunum en Bretar og Hollendingar eru fúsir til viðræðna í ljósi þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem á að fara fram að óbreyttu á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×