Innlent

Íslenska samninganefndin í viðbragðsstöðu

Íslenska samninganefndin í Icesave málinu er nú í viðbragðsstöðu í Bretlandi ef til nýrra viðræðna kemur. Óformlega samskipti hafa átt sér stað en ekki hefur boðað til samningafundar í dag.

Íslenska samninganefndin fór aftur til Bretlands í gærmorgun eftir að Bretar sendu þau skilaboð að þeir væru reiðubúnir að ræða tilboð Íslendinga í Icesave málinu.

Elías Jón Guðjónsson, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að nefndin hafi átt í óformlegum samskiptum við Breta í gær en ekki sé búið að boða til formlegra viðræðna. Hann telur þó ekki ólíklegt að viðræður hefjist á næstu dögum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu leggja Bretar gríðarlega áherslu á að klára málið svo hægt verði að aflýsa fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Deiluaðilar hafa samkvæmt þessu aðeins nokkra daga til stefnu en Icesave atkvæðagreiðslan á að fara fram um næstu helgi.

Hollendingar eru ekki þátttakendur í þessum viðræðum samkvæmt heimildum fréttastofu en í Hollandi situr nú starfsstjórn með takmarkað umboð til samningaviðræðna. Ef Íslendingar ná samkomulagi við Breta þykir hins vegar líklegt að Hollendingar fallist á þá niðurstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×