Lífið

Bubbi fær listamannalaun

Bubbi fær listamannalaun í fyrsta skipti.
Bubbi fær listamannalaun í fyrsta skipti.
„Nú, fékk ég listamannalaun? Þetta er ég glaður að heyra!“ segir tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens. Í gær var tilkynnt hverjir hljóta starfslaun listamanna þetta árið og Bubbi er einn þeirra. Hann fékk úthlutað launum í sex mánuði. Þetta er í fyrsta sinn sem Bubbi kemst að en hann hefur áður sótt um og ekki fengið. Um þessar mundir kemur Bubbi frítt fram í skólum landsins. Hann segir að listamannalaunin komi sér vel í tengslum við það – auk þess sem sem hann stefnir á stórt verkefni með vorinu.

„Ég er að spekúlera í að fara hringinn, að spila í helstu þorpum landsins. Þetta er í tilefni af þrjátíu ára starfsafmæli mínu og mig langaði að rifja upp hvernig þetta byrjaði allt fyrir þrjátíu árum. Draumurinn, en það er ekkert frágengið og við skulum hafa allan vara á, er að það verði ekki dýrara en þúsund krónur inn á tónleikana og helst ókeypis. Ég er því voða glaður að fá þetta,“ segir Bubbi.

Mikil aukning varð í umsóknum um listamannalaun þetta árið. 712 umsóknir bárust í samanburði við 560 árið áður. Hver mánaðarlaun listamanna nema 266.737 krónum en alls var 1.325 mánaðarlaunum úthlutað að þessu sinni. Með því sem eftirstandandi er frá fyrra ári fá íslenskir listamenn alls 1.600 mánaðarlaun þetta árið, eða tæpar 427 milljónir króna.

Af öðrum athyglisverðum nöfnum á listanum þetta árið má nefna hjónin Ásdísi Sif Gunnarsdóttur og Ragnar Kjartansson sem bæði fá sex mánuði úr myndlistarsjóðnum. Hið sama fær Einar Falur Ingólfsson, blaðamaður og ljósmyndari á Morgunblaðinu. Egill Ólafsson og Valgeir Guðjónsson fá báðir sex mánuði úr sjóði tónskálda og félagi þeirra Ásgeir Óskarsson fær þrjá mánuði. Hjá rithöfundum vekur athygli að bókmenntaverðlaunahafinn Guðmundur Óskarsson fær þrjá mánuði, Stefán Máni og Hugleikur Dagsson fá sex mánuði og þau Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir og Sjón fá tvö ár. Sjón hefur þegið full listamannalaun óslitið frá 2004.- hdm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.