Innlent

Ráðherrar hefðu ekki atkvæðarétt á Alþingi

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. Mynd/GVA
Ráðherrar hefðu ekki atkvæðarétt á Alþingi og miðað við núverandi ríkisstjórn væru tíu nýir þingmenn á þingi, samkvæmt frumvarpi þingmanna þriggja flokka.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokki, er fyrsti flutningsmaður frumvarps um að þingmenn sem eru skipaðir ráðherrar láti af þingmennsku á meðan þeir gegna ráðherraembætti. En frumvarpið er stutt af Sjálfstæðisflokks þingmanninum Pétri H. Blöndal og Valgerði Bjarnadóttur þingmanni Samfylkingarinnar.

Þetta er í sjöunda skipti sem frumvarp þessa efnis er lagt fyrir Alþingi en það hefur aldrei náð fram að ganga. Það lýtur að breytingu á stjórnarskrá, þannig að ef það yrði samþykkt nú, þyrfti nýtt þing að loknum kosningum að staðfesta það til þess að það yrði að lögum.

Nú sitja tólf ráðherrar í ríkisstjórn, þar af tíu sem einnig eru þingmenn. Ef þessi regla hefði gilt við myndun núverandi ríkisstjórnar, myndu þessir tíu ráðherrar missa atkvæðarétt sinn á þingi, þeirra á meðal forsætisráðherra og fjármálaráðherra. En tíu varaþingmenn sætu nú á þingi.

Fyrir Samfylkinguna væru það Mörður Árnason, Lúðvík Geirsson bæjarstjóri í Hafnarfirði, Anna Pála Sverrisdóttir, Magnús M. Norðdahl og Logi Már Einarsson.

Fyrir Vinstri græna væru á þingi Bjarkey Gunnarsdóttir, Auður Lilja Erlingsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir og Davíð Stefánsson. Gert er ráð fyrir að láti kjörnir þingmenn af ráðherradómi, geti þeir aftur sest á þing hafi ekki verið kosið í millitíðinni.

Ráðherrar gætu áfram tekið þátt í umræðum og mælt fyrir málum en hefðu ekki atkvæðarétt. Þetta gæti styrkt nefndarstörf þingsins, þar sem ráðherrar taka ekki þátt í þeim og því er um sjötti hluti þingmanna óvirkur í þeirri vinnu.

Fyrirkomulag sem þetta er í Noregi og Svíþjóð og þykir gefast vel.


Tengdar fréttir

Ráðherrar víki af Alþingi

Gert er ráð fyrir að Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, mæli í dag fyrir frumvarpi þess efnis að ráðherrar víki sæti á Alþingi á meðan þeir gegna ráðherraembætti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×