Innlent

Fjármálaráðherra vonast eftir hreyfingu á Icesave

Heimir Már Pétursson skrifar

Talsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fullyrðir að Icesave deilan hafi ekki áhrif á endurskoðun sjóðsins á efnahagsáætlun landsins. Fjármögnun áætlunar sjóðsins sé hins vegar grundvallaratriði við endurskoðun áætlunarinnar.

Hluti samninganefndar Íslands varðandi Icesave er komin til Lundúna. Fjármálaráðherra ræddi við bankamálaráðherra Bretlands í gær og vonast til að hreyfing komist á málin í dag eða næstu daga, eftir formlegt svar Íslendinga á mánudag. Í gagntilboði Breta og Hollendinga til Íslendinga fyrir helgi, var klikkt út með að það væri það besta sem þjóðirnar gætu boðið.

Fréttastofa sendi fyrirspurn til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í gær um hvenær önnur endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands hjá sjóðnum kæmist á dagskrá hjá stjórn sjóðins og hvort Bretar og Hollendingar ynnu gegn því að áætlunin fengi framgang vegna Icesave málsins. En endurskoðunin átti að fara fram um miðjan janúar.

Í svari sjóðsins segir að ekkert nýtt sé að frétta af málefnum Íslands hjá sjóðnum. Unnið sé með íslenskum stjórnvöldum að öllum þáttum áætlunarinnar vegna endurskoðunarinnar, þar með hvað varðar endurfjármögnun sparisjóðanna. Það mál nálgist niðurstöðu.

Þá segir í svarinu að eins og AGS hafi marg ítrekað, sé niðurstaða um Icesave ekki skilyrði að hálfu sjóðsins. Hins vegar sé full fjármögnun áætlunarinnar mikilvæg eigi hún að ná árangri. En eins og kunnugt er halda Norðurlöndin aftur af lánum sínum á meðan Icesave deilan er óleyst og lán frá þeim eru hluti áætlunar AGS.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×