Innlent

Átti 16 milljarða í árslok 2008

Guðbjörg Matthíasdóttir, aðaleigandi Ísfélagsins í Vestmannaeyjum og Árvakurs, átti sextán milljarða í eigið fé í lok árs 2008. Guðbjörg er í hópi ríkustu Íslendinganna, ef ekki sá allra ríkasti.

Ólíkt mörgum af þekktustu viðskiptajöfrum landsins undanfarin ár stendur Guðbjörg Matthíasdóttir, ekkja Sigurðar Einarssonar, útgerðar- og athafnamanns í Vestmannaeyjum styrkum fótum fjárhagslega eftir hrunið vægt til orða tekið.

Samkvæmt ársreikningi Fram ehf., eignarhaldsfélags Guðbjargar, átti hún 16 milljarða í eigið fé í lok árs 2008. Þar af 12 milljarða í ríkistryggðum verðbréfum.

Á vormánuðum 2009 keypti Guðbjörg ásamt Óskari Magnússyni og fleirum Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins. Eins og fréttastofa greindi frá fyrir skömmu keypti Guðbjörg einnig Lýsi hf. af þeim Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni og Katrínu Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Lýsis, á 235 milljónir króna í miðju bankahruni.

Guðbjörg seldi hlut sinn í Glitni í vikunni fyrir þjóðnýtingu bankans fyrir sex milljarða króna. Málið er inn á borði sérstaks saksóknara en eftir því sem fréttastofa kemst næst er Guðbjörg sjálf ekki talin hafa brotið af sér, heldur snýst málið um tilkynningaskyldu bankans í tengslum við söluna.

Fullyrða má að Guðbjörg sé í dag meðal auðugustu Íslendinganna ef ekki sá ríkasti og er hún gríðarlega valdamikil þó ekki fari mikið fyrir henni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×