Innlent

Heilagur papi talinn særa velsæmiskennd

Heilagur papi Á teiknaðri myndinni á flöskumiðanum má sjá hettuklæddan papa drúpa höfði með kross í greipum sér.
Heilagur papi Á teiknaðri myndinni á flöskumiðanum má sjá hettuklæddan papa drúpa höfði með kross í greipum sér.

Breyta þurfti nafni og flöskumiða nýs páskabjórs brugghússins Ölvisholts svo hann fengist seldur í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Nafnið, sem og kross sem sjá mátti á flöskumiðanum, var talið brjóta í bága við almennt velsæmi með skírskotun til trúarbragða.

Bjórinn heitir Heilagur papi og verður hann fáanlegur með því nafni og upprunalegum miða í takmörkuðu magni á skemmtistöðum. Til að hann fengist seldur í Ríkinu þurfti hins vegar að breyta nafninu í Miklholts papa, og skipta um flöskumiða.

Ákvörðun ÁTVR er byggð á reglum númer 631 frá 2009 um vöruval verslananna. Þar segir að ÁTVR taki ekki við vörum ef texti eða myndmál á umbúðum „brýtur í bága við almennt velsæmi m.a. með skírskotun til ofbeldis, trúarbragða, kláms, ólöglegra fíkniefna, stjórnmálaskoðana, mismununar, refsiverðrar háttsemi o.s.frv.“

Örn Sigurðsson, innkaupastjóri ÁTVR, sem unnið hefur hjá fyrirtækinu í fimmtán ár, segist aðeins muna eftir einu öðru dæmi þess að vöru hafi verið hafnað á grundvelli þessa ákvæðis. Það hafi líka verið innlend vara, og líka vegna trúarbragða.

Örn Stefánsson segist ekki telja að gömlu umbúðirnar séu ýkja hneykslanlegar. Þó hafi verið talið að þær féllu undir þetta ákvæði reglugerðarinnar og athugasemd því gerð.

„En þetta er auðvitað túlkunaratriði og það er erfitt að leggja línurnar í því. Við eigum ekkert auðveldara með það en birgjarnir,“ segir Örn.

Eigendur Ölvisholts eru hins vegar óánægðir og hyggjast kæra, enda hafi þeir orðið fyrir tjóni við að þurfa að skipta öllum flöskumiðunum út. Tjónið hefur þó ekki verið metið.

Árni Helgason, lögmaður Ölvis­holts, segir að líklega verði lögð fram stjórnsýslukæra gegn fjármálaráðuneytinu í vikunni þar sem verður látið á það reyna hvort ÁTVR hafi heimild til að hafna vörum á þessum grundvelli.

Ákvörðunin hafi haft mjög íþyngjandi áhrif fyrir Ölvisholt, sem hafi þurft að gera miklar og kostnaðarsamar breytingar á vörunni. Óeðlilegt sé að ÁTVR geti að eigin frumkvæði sett svo íþyngjandi reglu.

Þá bendir Árni á að þegar séu ýmsar vörur til sölu hjá ÁTVR sem innihalda trúarlegar vísanir. Þeir selji bjórinn St. Peter‘s, sem vísi til Péturs postula, bjórinn Thor, sem vísar til norræna þrumuguðsins, og kross sé áberandi á umbúðum snafsins Jägermeister.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×