Erlent

Vilja ganga inn í ESB vegna fisksins

Selurinn snæðir. Samband strandveiðimanna í Nuuk hafa ályktað einróma að Grænland eigi að endurskoða afstöðu sína til ESB, því sambandið hefði ekki bannað selveiðar innansambandsmanna. Nordicphotos/ap
Selurinn snæðir. Samband strandveiðimanna í Nuuk hafa ályktað einróma að Grænland eigi að endurskoða afstöðu sína til ESB, því sambandið hefði ekki bannað selveiðar innansambandsmanna. Nordicphotos/ap

Samband strandveiðimanna í Nuuk, NAPP, telur að Grænlendingar geti ekki lengur staðið utan við ESB.

Ein helsta ástæða þess að Grænland dró sig út úr ESB árið 1985 var sú að Grænlendingar töldu sig geta betur farið með fiskveiðistjórnun en það sem þá hét Evrópubandalagið.

Lars Mattæussen, formaður sambandsins, segir í viðtali við grænlenska blaðið Sermitsiaq að þetta eigi ekki lengur við: „Við þurfum að viðurkenna að fiskveiðistjórnunin hefur ekki batnað, og að örfáir einstaklingar ráða yfir öllum botnfiskveiðum.“

Einnig spilar inn í hjá sjómönnunum að brátt skellur á bann í ESB-ríkjum við innflutningi á grænlensku selskinni. Formaður sambands sjómannanna telur að innan ESB hefðu þeir verið í betri aðstöðu til að hafa áhrif á þessa ákvörðun.

„ESB var skapað til að verja hagsmuni aðildarríkja. Við teljum að ESB hefði ekki tekið ákvörðun sem hefði skaðað hagsmuni aðildarríkis,“ segir Mattæussen.

Einnig hefðu innviðir landsins notið góðs af aðild, því þá hefðu styrkir fengist úr þróunarsjóðum sambandsins. Meirihluti Landssambands grænlenskra fiski- og veiðimanna, KNAPK, hafnaði ESB-aðild fyrir sitt leyti í fyrra, og var bann ESB við hvalveiðum, selskinnsölu og breytingar á tollalögum meðal ástæðna sem tilgreindar voru.- kóþ



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×