Innlent

Margt annað þarf að klára fyrst

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Telur þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótakerfið ótímabæra og vill meðal annars að sett séu skýr lög um slíkar kosningar fyrst. Fréttablaðið/anton
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Telur þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótakerfið ótímabæra og vill meðal annars að sett séu skýr lög um slíkar kosningar fyrst. Fréttablaðið/anton

Áður en gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótakerfið þarf að huga að þrennu, að mati varaformanns Sjálfstæðisflokksins, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur:

Í fyrsta lagi að ljúka þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Í annan stað þarf stjórnin að móta sér skýra afstöðu til sjávarútvegskerfisins sem slíks, það er um hvaða kerfi eigi að kjósa. Í þriðja lagi þarf að setja skýr lög um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Þorgerður Katrín bregst hér við þeim orðum Steingríms J. Sigfússonar, sem sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi að þjóðaratkvæðagreiðsla um kvótakerfið kæmi til greina.

„Erum við að tala um kvótakerfið eins og það er í dag eða eins og ríkisstjórnin ætlar sér að hafa það með því að byrja fyrningarleiðina í gegnum skötuselinn?“ spyr Þorgerður. Þetta sé óljóst með öllu. Stjórnin þurfi að móta sér stefnu í sjávarútvegsmálum.

„Áður en við förum í einhverjum popúlisma að tala um þjóðaratkvæðagreiðslur um hitt og þetta eigum við að móta okkur almenn lög um þjóðar­atkvæðagreiðslur, þannig að það verði skýrt að valdið sé hjá þjóðinni, að það sé hægt eftir ákveðnum leikreglum að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu og þá eru engin mál undan­skilin, hvorki kvótinn né annað,“ segir hún. Valdið eigi ekki að vera hjá einum manni, forseta Íslands. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×