Innlent

Með 26 í markaðsdeild meðan fréttastofan rær lífróður

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Á tæpum tveimur árum hefur rúmlega 90 starfsmönnum RÚV verið sagt upp störfum. Niðurskurðurinn hjá RÚV að þessu sinni bitnar hvað harðast á fréttastofunni, sem sinnir lögubundnu hlutverki Rúv sem er sjónvarps- og útvarpsþjónusta í almannaþágu.

Á sama tíma og fimmtán fréttamönnum Ríkisútvarpsins hefur verið sagt upp í nafni sparnaðar starfa 26 starfsmenn í sölu- og markaðsdeild Rúv, en aðeins einum þeirra var sagt upp. Þess má geta að næstum því jafnmargir starfa í sölu- og markaðsdeild RÚV og starfa hjá Skjáeinum í heild sinni, en þar starfa þrjátíu manns.

Athygli vekur að útvarpsstjóri ákvað að skera ekki niður innkaup á erlendu efni sem er sérstaklega dýrt núna eftir gengisbreytingu krónunnar. Þess má þó geta að frumsýnt erlent efni minnkaði um fjórðung á síðasta ári að sögn útvarpsstjóra. Sem dæmi um sjónvarpsefni sem RÚV er að kaupa núna eru þættir eins The Secret Life of the American Teenager og Desperate Housewives. Þá má nefna léttar amerískar afþreyingarmyndir eins og Blades of Glory og Juno. Allt er þetta keypt í útlöndum í erlendri mynt. Samkvæmt lögum um RÚV er þjónusta í almannaþágu m.a skilgreind þannig:

Að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.

Að veita almenna fræðslu og gera þætti sem snerta málefni lands og þjóðar sérstaklega og með þeim hætti tryggja upplýsingagjöf um íslenskt samfélag.

Páll Magnússon sagði í samtali við fréttastofu að RÚV myndi áfram sinna lögbundnu hlutverki sínu í samræmi við lögin þrátt fyrir uppsagnir.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×