Innlent

Birnan var vel á sig komin

MYND/Hilma Steinarsdóttir.

Hvítabjörninn sem felldur var í Þistilfirði í gær var mun betur á sig kominn en birnirnir tveir sem felldir voru í Skagafirði vorið 2008. Eftirlitsvél Landhelgisgæslunnar leitaði að öðru dýri á svæðinu í dag, án árangurs.

Þistilfjarðarbirnan virðist vera ungt dýr og vel haldið en hún vegur 136 kg. Feldurinn er fallegur, óskemmdur og glansandi.

Bangsinn var fleginn á Sauðárkróki dag og feldurinn varðveittur þar en skrokkurinn fer suður á Tilraunastofuna á Keldum til frekari skoðunar.

Til samanburðar við birnuna sem felld var á Hrauni 2008 er þessi nokkru minni, en einungis 10 kg léttari. Engin nuddsár eru á skrokknum eftir sund eins og var áberandi með Hraunsbirnuna og hárin glansandi sem gefur til kynna að birnan hafi ekki soltið lengi.

Í morgun flaug síðan eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, TF SIF yfir svæðið þar sem birnan fannst í gær. Að sögn Friðriks Höskuldssonar yfirstýrimanns fóru þeir fjórum sinnum yfir svæðið en sáu engann björn. Þeir flugu síðan meðfram ströndinni að Húsavík og leituðu ummerkja án árangurs. Þrátt fyrir enginn björn hafi fundist útilokar Friðrik ekki að birnan hafi verið í fylgd með öðru dýri. Hann segir hugsanlegt að þeir fari í aðra eftirlitsferð um Vestfirði á morgun.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×