Innlent

Hefur breytt viðhorfum til fatlaðra

María Ellingsen leikkona afhendir Emblu Ágústsdóttur Kærleikskúluna 2009 í Listasafni Reykjavíkur. Hr. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, blessaði kúluna fyrir afhendingu. Fréttablaðið/Vilhelm
María Ellingsen leikkona afhendir Emblu Ágústsdóttur Kærleikskúluna 2009 í Listasafni Reykjavíkur. Hr. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, blessaði kúluna fyrir afhendingu. Fréttablaðið/Vilhelm
Embla Ágústsdóttir er handhafi Kærleikskúlunnar 2009. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra afhenti Kærleikskúluna, sem nefnist Snerting og er eftir Hrein Friðfinnsson, í Listasafni Reykavíkur í gærmorgun.

„Kærleikskúlan er veitt framúrskarandi fyrirmynd á ári hverju. Okkur hjá Styrktarfélaginu þykir Embla hafa skarað fram úr á árinu með því að vekja athygli á málefnum fatlaðra en einnig með því að hvetja fólk til þess að hafa trú á eigin getu,“ segir í tilkynningu Styrktarfélagsins.

„Embla hefur á engan hátt látið hreyfihömlun sína hindra sig í að lifa lífinu til fulls og ná háleitum markmiðum sínum í námi og starfi. Með því að miðla af reynslu sinni og lífssýn hefur hún unnið að því að breyta viðhorfum til fatlaðra og fengið fólk til að skilja að þó að hreyfihömlun sé sannarlega áskorun sé hún ekki endilega hindrun eða afsökun,“ sagði María Ellingsen leikkona þegar hún afhenti Emblu Kærleikskúluna í gær.

Í ræðu sinni fjallaði María meðal annars um mikil­vægi kærleikans og rifjaði upp að hann hefði verið valinn á þjóðfundinum 14. nóvember síðastliðinn sem eitt þeirra gilda sem þjóðin vildi hafa að leiðarljósi í samfélaginu. - óká


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×