Innlent

Fallið frá frestun mánaðar af orlofi

Sigríður Ingibjörg.
Sigríður Ingibjörg.

Ákvæði um frestun eins mánaðar af fæðingarorlofi þar til eftir þrjú ár í frumvarpi félagsmálaráðherra um breytingar á lögum um fæðingarorlof verður breytt í félagsmálanefnd, að sögn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, formanns félagsmálanefndar Alþingis.

Nefndin fundaði í gærmorgun og fundar í dag en stefnt er á að vinnu við frumvarpið verði lokið á mánudagskvöld. Að sögn Sigríðar Ingibjargar er verið að skoða leiðir til að mæta niðurskurði upp á 1.200 milljónir en hún vildi ekki tjá sig um það frekar hverjar þær væru.

Þær leiðir sem hafa verið nefndar eru lækkun hámarksgreiðslna í 300 þúsund og eða lækkun hlutfalls greiðslna úr 80 prósent launa í 75 prósent.

Tvisvar á þessu ári hefur hámarksgreiðsla úr fæðingarorlofssjóði verið lækkuð, 1. janúar úr 520 þúsundum í 400 þúsund og 1. júní í 350 þúsund.

Samkvæmt núverandi reglum fá mæður og feður þrjá mánuði hvort í fæðingarorlof og eru þrír mánuðir sameiginlegir, fæðingarorlof ber að taka fyrir 18 mánaða aldurs barns og mun vera ríkur vilji innan nefndarinnar til að halda því kerfi. - sbt








Fleiri fréttir

Sjá meira


×