Viðskipti innlent

Stofnfjáreigendur ætla að stefna MP banka

Sigríður Mogensen. skrifar

Hópur stofnfjáreigenda í Byr, sem fer fyrir félaginu Exeter, ætlar í samvinnu við stjórn sparisjóðsins að stefna MP banka vegna sölu bankans á stofnfjárbréfum í Byr skömmu eftir bankahrun. Sérstakur saksóknari rannsakar málið.

MP banki seldi félaginu Exeter stofnfjárbréfin á yfirverði, en Byr fjármagnaði kaupin. Menn frá embætti sérstaks saksóknara leituðu í höfuðstöðvum MP banka og hjá Byr í síðasta mánuði og yfirheyrði nokkra í tengslum við málið.

Hópur stofnfjáreigenda í Byr keypti Exeter fyrir skömmu á hundrað þúsund krónur til að nálgast gögn. Þeir skoruðu í dag á MP banka að endurgreiða söluverðmæti bréfanna, rúman milljarð. Á þennan hátt geti Exeter greitt Byr og þar með verði komið í veg fyrir tjón hjá sparisjóðnum.

„Við viljum að þessi viðskipti gangi til baka, þau voru óeðlileg á allan hátt að okkar mati," segir Guðjón Jónsson, stofnfjáreigandi Byr.

Guðjón segir að MP banki hafi beðið um lánið frá Byr fyrir hönd Exeter. Það sé óeðlilegt, svo ekki sé meira sagt.

Stjórn Byrs ætlar að vera í samstarfi við Exeter um að ná peningnum til baka að sögn Guðjóns. Spurður hversu langt þeir væru tilbúnir að ganga í málinu svarar hann: „Við göngum alla leið."

Þeir ætla að stefna bankanum ef það þarf til. Það liggi ljóst fyrir að ábyrgð MP banka sé mikil, segir Guðjón. Og hann hefur þetta við Margeir Pétursson, stjórnarformann MP banka, að segja:

„Ég vil bara segja við Margeir, nú er skák, þú átt næsta leik."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×