Innlent

Illugi: Ummæli Steingríms ómakleg

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Illugi segist taka skýringar Steingríms trúanlegar. Mynd/ Pjetur.
Illugi segist taka skýringar Steingríms trúanlegar. Mynd/ Pjetur.
„Hann var ekkert að ráðast á stjórnarandstöðuna með þessum ummælum, heldur að Alþingi öllu," segir Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, um ummæli Steingríms J. Sigfússonar í kvöldfréttum Stöðvar 2. Steingrímur sagðist þar efast um getu Alþingis til að ráða við það verkefni að endurreisa efnahag landsins.

Steingrímur var krafinn um skýringar á orðum sínum á þingfundi í kvöld. Þar sagðist hann hafa átt við að erfitt væri að sjá fram úr því að Alþingi næði að ljúka þeim verkefnum sem við blasa fyrir jól eða áramót

Illugi segist taka þessa skýringu trúanlega „Þá er ekkert meira um málið að segja annað en það að þau ummæli sem hann lét falla og án nokkurra útskýringa, þegar þau voru látin falla, voru ómakleg og engan veginn við hæfi að ráðherra tali með þannig hætti til Alþingis Íslendinga," segir Steingrímur. Ráðherra verði að vanda sig þegar að hann tali með þessum hætti.



„Étt´ann sjálfur Steingrímur"


Siv Friðleifsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, telur hins vegar að orð Steingríms hafi verið sneið til stjórnarandstöðunnar. „Manni er skapi næst að nota orð Steingríms „Étt´ann sjálfur"," segir Siv. Hún segist hljóta að stórefast um getu ríkisstjórnarinnar til að reisa efnahag landsins við.

„Steingrími væri nær að einbeita sér að því að verjast eigin ráðherrum. Af því að í morgun kaus Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, að básúna yfir alþjóð í fjölmiðlum að aðhaldsstigið í fjárlagafrumvarpinu einkenndist af miklu alvöruleysi," segir Siv. Þegar ráðherra fari fram með slíku orðalagi sé það bein árás á fjármálaráðherrann sem úthluti römmum í fjárlögunum til ráðuneyta

Siv bendir á að það hafi ekki verið meirihluti í sumar fyrir Icesave. Það hafi ekki verið fyrr en búið var að gera breytingar á frumvarpinu að þingmenn VG náðust um borð. Nú heyrist ekkert í þessum VG þingmönnum og núna sitjum við með málið í enn verri farvegi en fyrr og stjórnarandstaðan hefur verið að kalla eftir Ögmundi og öðrum þingmönnum VG fór mikið fyrir í umræðunni í sumar," segir Siv.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×