Viðskipti innlent

Geysir Green Energy eignast meirihluta í HS Orku

Geysir Green Energy (Geysir), Reykjanesbær og kanadíska jarðhitafyrirtækið Magma Energy Corporation (Magma) hafa lokið viðskiptum vegna kaupa Geysis á 34% hlut í HS Orku af Reykjanesbæ. Ennfremur kaupir Magma 8,6% hlut í HS Orku af Geysi.

Í tilkynningu til kauphallarinnar segir að með sölunni lýkur fyrri áfanga af tveimur í sölu Geysis á alls 10,8% hlutafjár í HS Orku til Magma fyrir rúma þrjá milljarða króna sem félagið staðgreiðir og mun hafa áhrif til styrkingar á gengi krónunnar.

Eftir sölu hlutarins í dag er Geysir eigandi 57,4% hlutafjár í HS Orku hf. en seinni áfangi viðskiptanna er sala á 2,2% hlut að auki til Magma í byrjun næsta árs. Að þeim viðskiptum loknum verður Geysir eigandi 55,2% hlutar í HS Orku.

Kaup Magma á hlut í HS Orku koma í kjölfar samkomulags Reykjanesbæjar og Geysis um breytt eignarhald á HS Orku og HS Veitum. Með því samkomulagi eignaðist Geysir nær allan hlut Reykjanesbæjar í HS Orku en lét á móti hlut sinn í HS Veitum. Reykjanesbær á nú 66,75% hlut í HS Veitum og 0,75% hlut í HS Orku.

Áður hefur Reykjanesbær keypt allar auðlindir HS Orku af félaginu og leigir því nýtingarréttinn, og tryggir þannig eignarhaldið á auðlindunum og að samfélagið njóti áfram arðs af nýtingu þeirra.

„Viðskipti þessi eru grundvöllur þess að gera HS Orku kleift að sækja sér fjármagn til fyrirhugaðra framkvæmda við uppbyggingu gufuaflsvirkjana á Suðurnesjum," segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis í tilkynningunni.

„Vegna veikingar íslensku krónunnar hafa erlendar skuldir HS Orku hækkað umtalsvert. Þar af leiðandi hefur eiginfjárhlutfall félagsins lækkað niður fyrir þau lágmörk sem kveðið er á um í lánasamningum félagsins. Félagið hefur nú náð samkomulagi við tvo af þremur lánadrottnum sínum og samningar við þann þriðja eru á lokastigi"







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×