Lífið

Forsala á Svörtuloftum í Iðu

Nýjasta bók Arnaldar Indriðasonar heitir Svörtuloft. Forsala verður á bókinni í Iðu á miðnætti á laugardagskvöld.
Nýjasta bók Arnaldar Indriðasonar heitir Svörtuloft. Forsala verður á bókinni í Iðu á miðnætti á laugardagskvöld.

„Ég hef nú ekki miklar áhyggjur af fyllibyttunum, við verðum lítið vör við þær hér í Lækjargötunni. Ætli birtan hjálpi okkur ekki, þær leita ekki mikið hingað,“ segir Arndís Sigurgeirsdóttir, verslunarstjóri í bókaversluninni Iðu. Sérstök forsala verður á nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar, Svörtuloftum, á miðnætti á laugardagskvöld. Á sömu stundu er einmitt að renna mesta brennivínsæðið á Íslendinga í miðborginni. „Við höfum gert þetta áður með Harry Potter. Það var að vísu að sumarlagi, en 7-9-13, þetta mun ganga vel,“ segir Arndís.

Talsverð eftirvænting er jafnan eftir bókum Arnaldar. Í þeirri nýjustu er lögregluforinginn Erlendur aftur orðinn aðalpersónan og því fagna margir aðdáendur rithöfundarins. Fréttablaðið greindi frá því fyrr í vikunni að starfsfólk Eymundsson hygðist keyra bókina út á sunnudagsmorgni til þeirra sem keyptu hana í forsölu. Iðufólk býður betur.

„Já, við opnum á miðnætti og bjóðum upp á rjúkandi kaffi. Svo ætlum við að gefa fólki Harðskafa með. Stefnan er að loka aftur klukkan eitt, en ég rek ekki viðskiptavini út úr búðinni ef það er mikið að gera,“ segir Arndís.

- hdm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×