Innlent

Svefnleysisbætur bankamanna

Fyrrverandi starfsmenn og stjórnendur gömlu bankanna gera milljarða króna launakröfur í þrotabú þeirra. Dæmi eru um að menn reyni allt til að hækka kröfur sínar, meðal annars að krefjast bóta vegna svefnleysis og bónusa fyrir vel unnin störf.

Launakröfur eru samkvæmt lögum forgangskröfur í þrotabú. Þær eru aðallega tvenns konar. Annars vegar geta þeir sem fengu vinnu í nýja bankanum farið fram á að fá muninn á launum gamla og nýja bankans greiddan út uppsagnarfrestinn en algengt er að laun fólks hafi lækkað um allt að 40%. Hins vegar geta þeir sem misstu vinnuna krafist launa út uppsagnarfrestinn. Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja hafa aðstoðað nokkur hundruð fyrrverandi og núverandi bankastarfsmenn við að útbúa launakröfur. Þeir aðstoða þó ekki stjórnendur og annast bara kröfur sem rúmast innan kjarasamninga.

Umræða um ofurlaun stjórnenda bankanna hefur verið áberandi og ljóst að þeir gætu gert háar kröfur í þrotabú bankanna. T.a.m. voru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, með 4 ára uppsagnarfrest. Þeir voru báðir með 70,5 milljónir króna í árslaun og gætu því samanlagt gert kröfu upp á rúman hálfan milljarð í þrotabúið. Kröfur æðstu stjórnenda bankanna falla þó ekki undir forgangskröfur. Þá er einnig álitamál hvort að kröfur þeirra sem voru titlaðir framkvæmdastjórar verði flokkaðar sem forgangskröfur. Nú þegar hafa slitastjórnir þrotabúanna fengið all nokkrar slíkar kröfur og er talið líklegt að þær hafni flestar fyrir dómstólum, líkt og 600 milljóna króna krafa William Fall, fyrrverandi forstjóra Straums.

Ómögulegt er að gera sér grein fyrir hver endanleg upphæð krafnanna verður fyrr en kröfulýsingarfrestur gömlu bankanna rennur út. Kröfurnar hlaupa þó á milljörðum en launakröfur í Straum einan námu um tveimur og hálfum milljarði króna. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa nokkrir starfsmenn sótt það fast að fá greidda bónusa og teygt sig stundum ansi langt til að hækka kröfurnar, m.a. með því að krefjast bóta vegna svefnleysis út af áhyggjum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×