Innlent

Minnsta kynjabil heims á Íslandi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Ísland er í fyrsta sæti í vísitölu Alþjóðaefnahagsráðsins um jafnræði kynjanna í heiminum samkvæmt nýrri skýrslu ráðsins. Noregur, sem áður vermdi fyrsta sætið, er hins vegar dottinn niður í það þriðja en Finnland er í öðru sæti og Svíþjóð í því fjórða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Vísitalan nær til 134 landa og er ætlað að mæla hvernig þjóðir skipta auðlindum og tækifærum milli karla og kvenna. Hækkun Íslands á listanum má einkum rekja til menntunar og þátttöku í stjórnmálum og skiptir þar töluverðu máli að hlutfall kvenna á þingi fór úr 33 prósentum í 43 á því tímabili sem til skoðunar var.

Í tilkynningu Nýsköpunarmiðstöðvarinnar kemur einnig fram að Ísland leiði heimsbyggðina í valdaeflingu kvenna í stjórnmálum en hins vegar sé launamunur karla og kvenna í svipuðum störfum enn mikill og skipar landið 50. sæti listans hvað það snertir og 46. sætið þegar litið er til hlutfalls kvenna meðal hátt settra embættismanna og framkvæmdastjóra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×