Lífið

Páll Óskar aleinn á nýrri Jackson-mynd

Páll sat einn í Smárabíói og átti fallega stund með konungi poppsins. fréttablaðið/anton
Páll sat einn í Smárabíói og átti fallega stund með konungi poppsins. fréttablaðið/anton
„Þetta var eins og að vera einn með Michael Jackson. Þetta var eins og að fá að taka í spaðann á honum,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson, sem bauðst að sitja einn í lúxussal Smárabíós og horfa á Michael Jackson-myndina This Is It sem verður frumsýnd á miðvikudag. „Það sem manni er efst í huga er þakklæti. Maður er þakklátur fyrir að Michael Jackson hafi verið til og þakklátur fyrir að einhver hafi haft vit á því að taka þessar æfingar upp á filmu,“ segir Palli.

Í myndinni er sýnt frá æfingum Jacksons fyrir tónleikaröð sína í London sem átti að hefjast skömmu eftir dauða hans. „Þetta er mynd um listamanninn Michael Jackson en ekki „fríkið“ Michael Jackson. Þú færð innsýn í hvernig hann ætlaði að gera hvert lag fyrir sig og það er magnað að sjá hvað hann er auðmjúkur og þægilegur í umgengni við alla,“ segir Palli. „Hann syngur öll lögin „live“ og ef þú lokar augunum og hlustar á hann syngja þá er þetta fimmtugur maður sem hljómar nákvæmlega eins og þegar hann var 25 ára, sem er ótrúlegt. Hver einasti tónn er svo skýr og hreinn.“

Hann segir að myndin sé hvalreki fyrir sanna aðdáendur Jacksons. „Hann er í það góðu formi og stuði að manni dettur ekki í hug að maðurinn sér að fara að deyja eftir þrjá daga, sem fær mann til að gruna að hann hafi verið drepinn. Það á að rannsaka þennan dauða sem morðmál. Þetta hefðu orðið flottustu tónleikar sögunnar og enginn hefði getað toppað þetta.“ - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×