Innlent

Farþegi á Gatwick: Flugfreyjunum var brugðið

Valur Grettisson skrifar
Starfsmenn Icelandexpress stóðu sig sérstaklega vel.
Starfsmenn Icelandexpress stóðu sig sérstaklega vel.

„Maður fann það þegar hún fór í loftið að það væri ekki allt með felldu," segir farþegi sem sat í flugvélinni frá Alicante á vegum Icelandexpress, en vélin þurfti að lenda á Gatwick flugvellinum í London vegna vélarbilunar í hreyfli.

Að sögn farþegans, sem er rétt rúmlega fimmtug kona, þá voru farþegar um borð sem þóttust sjá eld í hreyflinum. Sjálf varð hún ekki var við það þó hún hafi séð glitta í reyk.

Aðspurð hvernig hún hafi fundið að eitthvað var öðruvísi þegar vélin fór í loftið útskýrir konan: „Ég er enginn sérfræðingur en þegar maður veltir því fyrir sér þá var öðruvísi hljóð."

Flugvélin var að koma frá Alicante þegar í ljós kom að bilun varð í hreyfli vélarinnar.

„Ég gat fylgst vel með flugfreyjunum og sá að þeim var brugðið," segir farþeginn en hún bætir við að þær hafi staðið sig sérstaklega vel í erfiðri stöðu. Margir farþegarnir voru orðnir mjög órólegir enda ekki á hverjum degi sem fólk lendir í öðrum eins aðstæðum. Flugvélin var svo lent korteri eftir að farþegum var tilkynnt um bilunina.

„Það var mjög mikill viðbúnaður þegar við lentum," segir farþeginn en slökkviliðsbílar voru á brautinni. Sjálf sá farþeginn enga sjúkrabíla.

Farþegarnir fóru úr flugvélinni yfir í flugstöðina þar sem þeirra beið fjögurra tíma vist þar til önnur flugvél gat flutt þau heim á leið. Þrátt fyrir mikla bið þá voru farþegarnir þolinmóðir.

Farþeginn segir að fólki hafi verið misbrugðið en það hafi verið talsverður léttir að komast af stað á ný. Flugfreyjurnar báðust þá afsökunar á seinkuninni.

„Svo var tekið á móti okkur þegar við komum til Íslands. Þar beið starfsmaður sem rétt okkur umslög með afsökunarbeiðni og 25 þúsund króna gjafabréfi," segir farþeginn sem er þakklátur viðbrögðum Icelandexpress og hrósar þeim vel fyrir.

„Ég verð að hrósa þeim fyrir þetta," segir farþeginn sem sjálfur segist aldrei hafa lent í öðru eins.


Tengdar fréttir

Þurfti að lenda vegna bilunar í hreyfli

Flugvél á vegum Icelandexpress, og var að koma frá Alicante á Spáni, þurfti að lenda á Gatwick flugvellinum í London vegna vélarbilunar í nótt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×