Lífið

Njósnað um FM Belfast á Nasa

árni plúseinn Hljómsveitin FM Belfast er undir smásjá erlends stórfyrirtækis.
árni plúseinn Hljómsveitin FM Belfast er undir smásjá erlends stórfyrirtækis.

„Hann er örugglega með númerið mitt," segir Árni Plúseinn úr hljómsveitinni FM Belfast. David Levy, útsendari frá hinu virta umboðs- og afþreyingarfyrirtæki William Morris Endeavor, var staddur á Nasa á laugardagskvöldið þar sem hann njósnaði um FM Belfast á Iceland Airwaves-hátíðinni.

Árni kannast við áhuga fyrirtækisins, sem hefur haft stórlaxa á borð við The Rolling Stones, Eminem og Britney Spears á sínum snærum. Einnig eru þar á mála leikstjórarnir Quentin Tarantino og Baltasar Kor­mákur, sem nýverið gerði við það umboðssamning. „Ég heyrði þetta en hann hefur ekkert spjallað við mig beint, ekki enn þá," segir Árni, sem hefur heyrt góða hluti um fyrirtækið: „Þetta var útskýrt þannig fyrir mér að Elvis Presley hafi verið hjá þeim." Hann segir að tónleikarnir á Nasa hafi verið mjög vel heppnaðir.

„Það voru mikil læti. Ég hef sjaldan séð svona mikið af fólki á svona litlum stað."

David Levy nýtti einnig tækifæri og skoðaði bandaríska tríóið Jessica 6, sem spilaði á Nasa sama kvöld og FM Belfast, og dönsku söngkonuna Oh Land í Listasafni Reykjavíkur. Fór hann síðan af landi brott skömmu síðar.

Róbert Aron Magnússon hjá Iceland Airwaves segir að hátíðin hafi heppnast einstaklega vel. Samningur Hr. Örlygs við Icelandair er að renna út og staðfestir Róbert að nýr samningur verði undirritaður á næstu vikum. Hátíðin verður því haldin að ári liðnu.

„Að sjálfsögðu komum við sterkir inn á næsta ári. Við viljum reyna að tilkynna fyrstu hljómsveitirnar fljótlega eftir áramót og erum strax farnir að skoða," segir hann. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×