Lífið

Ilmur gerir heimildarmynd um islam

Leikkonan og háskólaneminn Ilmur Kristjánsdóttir er að undirbúa heimildarmynd um islam.
Leikkonan og háskólaneminn Ilmur Kristjánsdóttir er að undirbúa heimildarmynd um islam. Mynd/Valli

Leikkonan og guðfræðineminn Ilmur Kristjánsdóttir er að undirbúa heimildarmynd um islamstrú sem nefnist Islam á Íslandi. Hún og Tinna Lind Gunnarsdóttir, sem er með henni í guðfræði við Háskóla Íslands, hafa fengið handritsstyrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands til að ljúka við handrit myndarinnar. Áætlað er að tökur hefjist í haust.

„Henni er ætlað að varpa ljósi á islam á Íslandi. Við viljum útrýma fordómum gegn islam með einföldum hætti með því að fræða fólk um trúarbrögðin," segir Ilmur um myndina.

Hugmyndina fengu þær stöllur eftir að hafa setið áfangann Islam í fortíð, nútíð og framtíð sem Magnús Bernharð Þorkelsson kennir. Fengu þær leyfi til að skila handriti að heimildarmynd sem lokaverkefni áfangans í stað ritgerðar. Í framhaldinu ætla þær að sækja um framleiðslustyrk til að geta tekið myndina upp.

Ilmur vill uppfræða almenning betur um islamstrú og ýmislegt sem henni tengist og er myndinni ætlað að svara fjölda spurninga. „Eins og með slæðuna, þá er hún tiltölulega nýtt fyrirbæri sem tengist tísku frekar en nokkuð annað. Í Íran er það í lögum að ganga með slæðu en hvergi annars staðar."

Þrátt fyrir að vera önnum kafin í leiklistinni segist hún vel geta hugsað sér að fara út í heimildarmyndagerð í framtíðinni. „Það verður að koma í ljós. Ef það er eitthvað viðfangsefni sem kveikir í mér þá getur það vel verið."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×