Lífið

Hugleikur aftur í Símaskrána

Hugleikur er mættur aftur með framhald myndasögunnar úr síðustu Símaskrá. Mynd/GVA
Hugleikur er mættur aftur með framhald myndasögunnar úr síðustu Símaskrá. Mynd/GVA

„Mér fannst ég ekki vera búinn að klára þessar persónur," segir Hugleikur Dagsson, sem hefur annað árið í röð samið myndasögu fyrir Símaskrána. „Ég reyndi að gera þetta eins sjálfstætt framhald og ég gat en sagan er samt framhald af atburðum fyrri bókar."

Nýja sagan, sem heitir Garðarshólmi - önnur skorpa, segir frá því hvernig pilturinn Knútur öðlast ofurkrafta og verður þrumuguðinn Þór. „Ég stal þarna pælingum úr Marvel-myndasögum og He-Man-teiknimyndunum," segir Hugleikur. Inn í söguna fléttast síðan einelti sem vinkona Knútar, Hrafnhildur, verður fyrir. „Sagan segir frá því hvernig hann bregst við því, hvort hann á að verja hana eða þykjast ekki þekkja hana. Þarna er snert á þessu frumskógarlögmáli sem gengur í öllum skólum heimsins."

Einnig er í Símaskránni smásaga um veðurfræðing, kallaður Stinni Stinningskaldi, sem er hættur að hafa rétt fyrir sér. Jólakötturinn kemur jafnframt við sögu á nýjan leik. Núna hefur hann verið vistaður í Húsdýragarðinum, þar sem síðasta saga endaði, sem er núna fullur af goðsagnaskepnum. „Það hefur ekki endilega jákvæð áhrif á land og þjóð að læsa inni goðsagnaskepnur," segir Hugleikur og bætir við að Eurovision og Snorra-Edda fái einnig sitt pláss í sögunni.

Síðasta myndasaga Hugleiks hitti rækilega í mark og var ólíklegasta fólk farið að lesa Símaskrána spjaldanna á milli. „Það var ákveðin afsökun fyrir mig til að gera eitthvað sem var ekki kúk- og piss-brandarar," segir hann. „Mér fannst auðveldara að skrifa þannig því ég hélt alltaf að það væri svo auðvelt að vera dóni. Núna er auðveldara að fara hina leiðina." - fb










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.