Innlent

Ungt fólk flytji út frekar en að vera atvinnulaust hér á landi

Félagsmálaráðherra segir að það sé blóðtaka þegar ungt fólk hverfur úr landi, eins og nú er að gerast í auknum mæli. Hins vegar sé betra að Íslendingar leiti þekkingar og reynslu erlendis, en að þeir sitji atvinnulausir heima. Búslóðaflutningum frá Íslandi hefur fjölgað um helming á milli ára og jafngildir því að daglega flytji að minnsta kosti ein fjölskylda til annars lands. Þetta kann að vera vísbending um að landflótti sé skollinn á.

„Það er vissulega blóðtaka. En það er líka blóðtaka ef fólk situr hér atvinnulaust. Það er miklu betra ef það á kost á að leita sér vinnu annars staðar, eða getur farið í nám að geri það og komi svo aftur reynslunni ríkari. Við höfum haft af þvi mjög gott sem þjóð að fá reynslu og þekkingu annars staðar frá. Þannig höfum við treyst stoðir efnahagslegrar uppsveiflu á undanförnum árum," segir Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra.

Árni Páll segir það markmið stjórnvalda að ná efnahagslegum stöðugleika, skapa samkeppnishæft samfélag með sambærilegt vaxtastig, álíka lífskjör og vinnuálag og í nágrannalöndunum. „Það auðvitað mikilvægasta skrefið að fyrirtækin hætti að halda að sér höndum og þori að ráða fólk í vinnu og taka áhættu. Ríkið getur ekki gert annað en að skapa þessi almennu skilyrði. Það er líka mjög mikilvægt við teljum kjark í fyrirtækin á þessari stundu. Vaxtalækkunarferlið er hafið og mun halda áfram og núna er tíminn fyrir fyrirtækin að hugsa sér til hreyfings og ráða fólk í vinnu," segir Árni Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×