Innlent

Vísbendingar um að landflótti sé hafinn

Búslóðaflutningum frá Íslandi hefur fjölgað um helming á milli ára og jafngildir því að daglega flytji að minnsta kosti ein fjölskylda til annars lands. Þetta kann að vera vísbending um að landflótti sé skollinn á.

Linnulausar fyrirspurnir berast skipafélögunum - Eimskip og Samskip - um kostnað vegna búslóðaflutninga frá Íslandi. Hjá Eimskip fór þegar að bera á fjölgun búslóðaflutninga í byrjun ársins og í apríl hafði orðið helmingsaukning miðað við sama mánuð í fyrra. Frá áramótum hefur félagið flutt alls 151 búslóð, sem eru 38 að meðaltali á mánuði. Það þýðir að ein fjölskylda - og gott betur - er hvern dag að flytja af landi brott. Íslendingar eru að mestu sagðir vera á bak við þessar tölur og einhverjir útlendingar sem þá hafa búið á Íslandi um árabil og fest hér rætur. Farandverkamenn eru ekki sagðir meðtaldir. Vinnumálastofnun gerði ráð fyrir landflótta þegar kæmi fram á vorið og eru vísbendingar um að þær spár séu að ganga eftir.

Merkjanleg aukning er á flutningum til Noregs, en þá á kostnað hinna Norðurlandanna. Það er einmitt þangað sem ung íslensk hjón, þau Erna Rán Arndísardóttir og Ingólfur Þór Tómasson, ætla að flytja með fjölskyldu sína í lok þessarar viku. Þegar fréttastofu bar að garði var verið að pakka niður í kassa og mála, en íbúðina var erfitt að selja og verður í útleigu fyrst um sinn. Þau segja margar ástæður fyrir flutningunum. Ein sé sú að þau reki ferðaþjónustu á Íslandi, en nokkurs konar systurfyrirtæki ytra, og ákveðið hafi verið að búa til ný tækifæri í kreppunni og ráðast í uppbyggingu þess.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×