Innlent

Líf drapst úr ofsahræðslu - verður jörðuð síðdegis

Valur Grettisson skrifar
Hreindýr. Myndin er ekki af Líf.
Hreindýr. Myndin er ekki af Líf.

Hreindýrakálfurinn Líf drapst í gær. Hún verður jarðsett síðdegis í dag.

Við krufningu kom í ljós að það var hvítvöðasýki sem dró hana til dauða. Hún orsakast meðal annars af ofsahræðslu.

Bóndakonan Dagbjört Briem Gísladóttir var miður sín þegar Vísir ræddi við hana.

„Ég er fullorðin manneskja og búinn að sjá mikið, en ég höndla þetta ekki," sagði Dagbjört sem var að vinna í Lyfju þegar blaðamaður náði tali af henni. Hún var eyðilögð yfir missinum, enda höfðu íbúar á bænum Sléttu bundist Líf miklum tilfinningaböndum.

Dagbjört telur að ástæðan fyrir hvítvöðasýki Lífar að klaufarnar voru klipptar fyrir tveimur vikum síðan. Að sögn Dagbjartar var það í fyrsta skiptið sem dýrið var beitt þvingunum.

„Ég tel að það hafi orsakað þetta ferli," sagði Dagbjört miður sín.

Dagbjört var þreytt þegar við hana var rætt. Hún vakti með Líf síðustu nóttina og það tók á, tilfinningalega og andlega. Það var svo í gær sem dýrið fékk krampa og lífsneistinn slökknaði.

Dagbjört hefur þurft að berjast fyrir tilverurétti Lífar. Hún gagnrýndi Umhverfisstofnun harkalega þegar þeir sendu henni bréf þar sem stóð að aflífa þyrfti dýrið ef hún myndi ekki sækja um tilskilin leyfi.

Gagnrýnin hafði sín áhrif, reyndar slík að umhverfisráðherrann sjálfur, Kolbrún Halldórsdóttir, fór austur á land til þess að heimsækja kálfinn og Dagbjörtu.

„Ég átti þetta dýr, það átti stað í hjarta mínu sem verður ekki fyllt á ný," sagði Dagbjört með ekka í röddu og bætti við: „Við jörðum hana svo síðdegis."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×