Innlent

Sjá ekki framtíð í krónunni

Meirihluti, eða 61,9 prósent, segist ekki vilja að íslenska krónan verði framtíðargjaldmiðill hér á landi. 38,1 prósent vill halda í krónuna.

Ekki er munur á afstöðu eftir kyni, en íbúar á landsbyggðinni eru heldur jákvæðari gagnvart krónunni en íbúar á höfuðborgarsvæðinu. 57,7 prósent íbúa á landsbyggðinni segjast ekki vilja að krónan verði framtíðargjaldmiðill, en 64,5 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu eru sama sinnis.

Ef litið er til afstöðu fólks eftir stuðningi við stjórnmálaflokka er traust á krónunni mest meðal kjósenda Sjálfstæðisflokks en minnst meðal kjósenda Samfylkingar.

81,8 prósent kjósenda Samfylkingar vill ekki að krónuna til framtíðar. 62,1 prósent kjósenda Framsóknarflokks er sama sinnis, sem og 59,3 prósent kjósenda Vinstri grænna. Meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokks vill hins vegar að krónan verði hér framtíðargjaldmiðill en 42,3 prósent vilja að skipt verði um gjaldmiðil.

Af þeim sem ekki taka afstöðu segjast 57,8 prósent ekki vilja að krónan verði framtíðargjaldmiðill.

Hringt var í 800 manns þriðjudaginn 14. apríl og skiptust svarendur jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu. Spurt var; Vilt þú að krónan verði framtíðargjaldmiðill á Íslandi? 83,3 prósent tóku afstöðu til spurningarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×