Innlent

150 þungavigtarmenn í Samfylkingunni skora á Jóhönnu

Líklegt er talið að Jóhanna Sigurðardóttir lýsi yfir formannsframboði sínu í Samfylkingunni á allra næstu dögum. Á föstudag var henni afhent áskorun frá 150 þungavigtarmönnum og konum í flokknum um að bjóða sig fram og í gær fékk hún yfirburðarkosningu í fyrsta sæti í prófkjöri flokksins í Reykjavík.

Þeir sem skrifuðu undir áskorunina til Jóhönnu er fólk sem gegnir ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn, bæjarstjórar, bæjarfulltrúar, þingmenn og annað þungavigtarfólk. Jóhanna er ótvíræður leiðtogi Samfylkingarfólks með um 78 prósent atkvæða í fyrsta sæti eftir prófkjörið í gær, sem er mun betri kosning en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fékk í síðasta prófkjöri. Ekki hefur náðst í Jóhönnu í dag.

Á eftir henni koma svo Össur Skarphéðinsson og Helgi Hjörvar. Nýtt fólk skipar fjórða, fimmta og sjötta sæti listans, þau Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Skúli Helgason og Valgerður Bjarnadóttir. Steinunn Valdís Óskarsdóttir er í sjöunda sætinu og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir félagsmálaráðherra í því áttunda, en flokkurinn hefur nú átta þingmenn í Reykjavík. Ásta Ragnheður sóttist eftir þriðja sætinu eins og margir aðrir.

,,Ég túlka þetta fyrir mína hönd sem varnarsigur," segir Ásta Ragnheiður. Rík krafa hafi verið um endurnýjun og hana hafi flokksmenn fengið. Hún segir ómögulegt að segja hvort hennar sæti verði baráttusætið.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×