Innlent

Ísland numið árið 720 en ekki 874?

Fornleifafræðingar, sem grafa nú á alþingisreitnum, eru komnir niður á járngerðarofna sem benda til að endurskrifa þurfi Íslandssöguna og einhverjir hafi verið sestir að á undan Ingólfi Arnarsyni.

Vísindamenn við Háskóla Íslands vonast til að geta með nýju aldursgreiningartæki svarað því með óyggjandi hætti innan árs hvort Ísland hafi verið numið 150 árum fyrr en almennt hefur verið talið.

Í barnaskólum hefur verið kennt að Ísland hafi verið numið árið 874. Á landnámssýningunni í Aðalstræti er ártalið 871 plús mínus tvö ár notað. Menn gætu þurft að leiðrétta ártalið enn frekar og hafa það árið 720 eða þar um bil.

Fornleifafræðingar á Alþingisreitnum eru komnir niður á skýr merki um mannvistarleifar fyrir tíð Ingólfs, ofna sem notaðir voru til járngerðar. Að sögn Völu Garðarsdóttur fornleifafræðings fundust ofnarnir undir gjósku, sem tímasett er árið 871, sem bendi til mannvistar fyrir þann tíma.

Járngerðarmennirnir notuðu viðarkol en sýni úr þeim verða nú aldrursgreind. Þar er komið inn á sérsvið Páls Theodórssonar eðlisfræðings og samstarfsmanna sem um nokkurra ára skeið hafa verið að þróa hagkvæmara og nákvæmara tæki til aldursgreiningar en nú þekkist. Það ætti að geta við bestu aðstæður gefið nákvæmni þannig að ekki skakki meira en 15 árum til eða frá.

Þrjátíu ára gamlar aldursgreiningar úr fornleifarannsóknum í Suðurgötu og Vestmannaeyjum hafa áður bent til eldri mannvistar. Niðurstöðurnar, að sögn Páls, bentu sterklega til þess að landnám væri um 150 árum eldra en Ari fróði segi. Fornleifafræðingar og sagnfræðingar hafi hins vegar hafnað þeim á sínum tíma.

Páll segist aldrei hafa verið sáttur við hvernig menn afgreiddu þær aldursgreiningar. Hann hafi skoðað hversu traustar þær væru og hvort veilur fyndust í þeim. Þvert á móti hafi ný gögn styrkt þessar mælingar.

Prófunum á nýja tækinu er nú lokið og fyrstu mælingar að hefjast. Á næstu tveimur til þremur árum er áformað að kortleggja upphaf landnáms um land allt, hvenær landnámsmenn komu fyrst á einstaka staði og hvernig byggðin dreifðist smámsaman út.

En hvenær verður svo hægt að nefna nýtt ártal fyrstu Íslandsbyggðar? Kannski eftir eitt ár, svarar Páll.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×