Innlent

Meirihluti landsmanna andvígur ESB-aðild

Meirihluti landsmanna er andvígur því að Íslands sæki um aðild að Evrópusambandinu samkvæmt könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Stuðningur við aðild er mestur meðal kjósenda Samfylkingar en minnstur meðal sjálfstæðismanna.

Könnunin var gerð fimmtudaginn 26. febrúar síðastliðinn en hringt var í 800 einstaklinga á landinu öllu. 75,4 prósent tóku afstöðu eða 603 einstaklingar.

Spurt var: Á Ísland að sækja um aðild að Evrópusambandinu?

46,1 prósent voru hlynnt aðild en 53,9 prósent andvíg.Þegar niðurstaðan er skoðuð eftir stjórnmálaflokkum kemur í ljós að meirihluti kjósenda samfylkingarinnar er hlynntur aðild eða 77,5 prósent. 22,5 prósent eru hins vegar andvíg aðild.

40 prósent framsóknarmanna eru hlynnt aðild en 60 prósent andvíg. 38,2 prósent vinstri grænna vilja ganga í Evrópusambandið en 61,8 prósent eru því andvíg.

Stuðningur við aðild er minnstur meðal sjálfstæðismanna eða 26,5 prósent. 73,5 prósent sjálfstæðismanna voru andvíg aðild. Meirihluti þeirra sem voru óákveðnir eða vildu ekki gefa upp stuðning við ákveðinn stjórnmálaflokk er einnig andvígur aðild.

Afstaða þjóðarinnar til Evrópusambandsaðildar hefur verið nokkuð sveiflukennd síðastliðna mánuði. Í nóvember voru um 70 prósent hlynnt aðild. Stuðningur fór síðan minnkandi og í könnun sem gerð var í síðasta mánuði voru aðeins um 40 prósent landsmanna hlynnt aðild.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×