Innlent

Óákveðnum fjölgar

Stór hluti óánægðra kjósenda, sem í fyrri skoðanakönnunum Fréttablaðsins hafa stutt Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna, eru ekki tilbúnir til að leggja lag sitt við neinn af stjórnmálaflokkunum og telja sig óákveðna.

Frá því í janúar á síðasta ári hefur óákveðnum, sem hluti af öllum svarendum, fjölgað úr 20,5 prósentum í 36,4 prósent, um tæp sextán prósentustig. Frá því í könnun blaðsins í nóvember þar til í janúar fjölgaði óákveðnum um sjö prósentustig, úr 29,4 prósentum.

Ef litið er til svarenda allra, en ekki bara þeirra sem tóku afstöðu, jókst fylgi Framsóknarflokksins, frá nóvember þar til í janúar um 4,9 prósentustig, og fylgi Vinstri grænna jókst á sama tíma um 1,6 prósentustig.

Fylgi Samfylkingar á sama tíma dregst saman um 7,7 prósentustig af öllum svarendum, og fylgi Sjálfstæðisflokks dregst saman um 1,9 prósentustig.

Stærsti hópurinn, fyrir utan þá sem yfirgefa Samfylkinguna, er því hópurinn sem nýlega varð óákveðinn og finnur sig ekki í núverandi stjórnmálaflokkum.

Miðað við hve hópur óákveðinna er orðinn stór geta því miklar sveiflur orðið á fylgi flokka á komandi mánuðum. - ss






Fleiri fréttir

Sjá meira


×