Innlent

Íslendingar verða ekki skuldsettasta þjóð í heimi

Íslendingar verða ekki skuldsettasta þjóð í heimi þrátt fyrir þau lán sem tekin verða á næstunni vegna efnahagsþreninganna. Hins vegar hefur engin þjóð fengið jafnmikinn skell vegna efnaghagskreppunnar.

Þetta sagði Ásmundur Stefánsson, ráðgjafi stjórnvalda, á fundi efnahags- og skattanefndar Alþingis í dag. Fram kom í máli Ásmundar að skuldirnar nú væru 30 prósent af landsframleiðslu en myndu hækka. Ekki nefndi hann þó neina tölu í því samhengi.

Nefndarmenn inntu þá Ásmund og Friðrik Má Baldursson, prófessor við HR, eftir því í hverju efnahagsáætlun stjórnvalda fælist, en hún er forsenda samstarfsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Fram kom í máli Ásmundar og Friðriks að innviðir íslensks samfélags væru með öðrum hætti en flestra þeirra landa sem sótt hefðu um aðstoð hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á liðnum árum. Efnahagsáætlun stjórnvalda væri almenns eðlis en þó með efnislegum fyrirætlunum.

Í raun væri um að ræða yfirlýsingu frá íslenskum stjórnvöldum að þau myndu standa við að greiða af láninu og undir þeirri ábyrgð sem því fylgdi. Ekki lægi fyrir þykk bók um áætlunina en unnið yrði að henni á næstu misserum. Þar yrði tekið mið af spám bæði Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins um þróun efnahagsmála. Það væri í höndum stjórnvalda og Alþingis að vinna að aðgerðum til þess að reisa efnahag landsins við.

Nefndarmenn allra flokka lýstu yfir ánægju með fundinn í efnahags- og skattanefnd og sögðu hann hafa varpað ljósi á stöðu mála. Voru flestir á því að það hefði verið eina í stöðunni að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en þar með væri verkinu ekki lokið. Við stæðum frammi fyrir erfiðu verkefni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×