Innlent

Pólsku ferðamönnunum var brugðið og hlupu til baka

Breki Logason skrifar
Ísbjörninn sem felldur var í Skagafirði á mánudag.
Ísbjörninn sem felldur var í Skagafirði á mánudag. MYND/VALLI

Pólsku ferðmönnunum tveimur sem sáu ísbjarnarspor nálægt Hveravöllum í morgun var nokkuð brugðið að sögn Gunnars Guðjónssonar umsjónarmanns á svæðinu. Hann segist hafa farið að leita að birninum en ekki séð neitt. Því næst hringdi hann í lögregluna sem setti viðbúnaðaráætlun í gang.

„Þau komu til mín og sögðust hafa labbað fram á þessi spor og þeim hafi verið nokkuð brugðið. Því næsti hafi þau hálfpartinn hlaupið til baka," segir Gunnar sem segir að fólkið hafa verið um 2-3 km norðan við Hveravelli þegar þau gengu fram á sporin.

Vísir sagði frá atvikinu fyrr í kvöld en landhelgisgæslan hefur flogið yfir svæðið auk þess sem lögreglan hefur farið að leita sporanna. Sporin hafa þó ekki fundist aftur.

Gunnar segir engan hafa séð neinn björn á svæðinu en þó sé betra að hafa varann á þó menn séu nokkuð spakir.

Ferðamennirnir sáu sporin í snjó og teiknuðu þau upp fyrir lögreglu. Þau sögðust nokkuð vön gönguferðum í skógum og þekktu því muninn á t.d sporum eftir refi og þessum sem hafi verið mjög stór.

Gunnar segir að talaði hafi verið um að björgunarsveitin ætli jafnvel að leita á svæðinu á morgun.

Aðspurður hvort hann viti af einhverju fólki á göngu á svæðinu segir Gunnar: „Ég mætti einum á röltinu og svo kom annar á hjóli inn á Hveravelli áðan. Það er alltaf eitthvað fólk þarna á þvælingi.


Tengdar fréttir

Ísbjörn á Hveravöllum?

Í morgun barst Lögreglunni á Blönduósi tilkynning frá umsjónarmanni á Hveravöllum að fyrr um morguninn hafi tveir erlendir ferðamenn farið í gönguferð frá Hveravöllum áleiðis að Þjófadölum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×