Innlent

Kennslustofur eins og vígvellir

Kennslustofur grunnskólanna eru oft á tíðum eins og vígvellir og kennarar flosna upp úr störfum sínum vegna vanlíðunar.

Á heimasíðu sinni segir Atli Harðarson, aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands, að starfsskilyrði grunnskólakennara séu í mörgum tilvikum illþolanleg ef ekki óþolandi. Þegar verst lætur verða heilu bekkirnir að einhvers konar vígvelli fremur en vinnustað. Virðingaleysið og áreitið sem kennarar verða fyrir leiðir til þess að kennurum líði illa í lok vinnudags eða missi stjórn á sér fyrir framan nemendur.

Atli segir sökina liggja að miklu leyti í þeirri menntastefnu sem nú er við lýði. Grunnskólinn ráði ekki við það hlutverk að annast uppeldi barna og menntakerfið virðist því ætla enda eins og önnur opinber kerfi. Þau lofa að gera allt fyrir alla, en krepera á sjálfum sér og gera á endanum ekki neitt fyrir neinn.

Atli segir að skólastjórnendur verði að fá ótvíræðar heimildir til að beita ráðum sem duga gegn slæmri hegðun. Meðal þess sem Atli leggur til er að: Sekta foreldra ef börn skrópa í grunnskóla, að útskrifa ekki börn eftir 10 ár heldur þegar markmið skólagöngunnar hafa náðst og þeir sem ekki kunna að haga sér fái sérstaka kennslu í hegðun sem bætist við venjulegan skóladag.

Mikill flótti hefur verið úr kennarastéttinni á undanförnum árum og segir Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, að slæmt starfsumhverfi sé hluti skýringarinnar, þótt kjaramál ráði þar mestu. Hann viðurkennir að úrræði grunnskólanna gagnvart agaleysi séu fá, en segir að agaleysi í skólunum endurspegli það agaleysi sem ríkir í samfélaginu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×