Lífið

Árni Johnsen er ekki á leið í forsetaframboð

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
„Nei, ég er ekki á leið í forsetann," segir Vestmannaeyingurinn Árni Johnsen inntur eftir því hvort hann væri ekki rakinn kandídat í forsetaembætti lýstu eyjarnar yfir sjálfstæði. Hann var á leið heim með nýverkaðan kúttmaga þegar Vísir náði tali af honum.

„Við erum félagslyndir eins og lundinn og höfum ekki viljað skiljast við landa okkar á fastalandinu, við vitum að þeir þurfa á okkur að halda," segir Árni, sem sér ekki fyrir sér sjálfstæðar Vestmannaeyjar í náinni framtíð.

Árni lék raunar sendiherra Vestmannaeyja í aprílgabbi Ríkisútvarpsins, þegar hann var blaðamaður á Morgunblaðinu. Gabbið gekk út á það að eyjarnar hefðu lýst yfir sjálfstæði og gengið frá málunum á einni helgi. Menn lögðu nokkurn trúnað á grínið, enda ekki alveg úr lausu lofti gripið.

„Vestmannaeyjar hafa alltaf verið mjög sjálfstæðar," segir Árni, og vísar þar til að eyjarnar hafi alltaf staðið vel fjárhagslega. „Þær voru séreign danska konungsins og Nýhöfnin og konunglega leikkhúsið er byggt fyrir peninga úr Vestmannaeyjum." Hann segir að tólf prósent af öllum aflaverðmætum komi frá Vestmannaeyjum og út frá fjárhagslegum hagsmunum hefði sjálfstæði því í sjálfu sér borgað sig. „Þær eru enná slík gullkista."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×