Innlent

Staða íslenskra grunnskólanema versnar skv. PISA-rannsókn

MYND/GVA
Staða íslenskra grunnskólanema gagnvart jafnöldrum sínum í svokallaðri PISA-könnun hefur versnað á milli áranna 2000 og 2006 samkvæmt nýrri PISA-könnun sem birt var í dag.

Í henni kemur fram að staða Íslands hafi versnað mest í lesskilning en frammistaða íslenskra nemenda þar hefur hrakað marktækt frá árinu 2000. Staða Íslands versnar minnst í stærðfræði. Í náttúrufræði lendir Ísland í 27. sæti af 57 löndum, rétt fyrir neðan meðaltal OECD-landa. Í lesskilningi lendir Ísland í 24. sæti, einnig rétt fyrir neðan meðatal OECD, og í 17. sæti í stærðfræði, rétt fyrir ofan meðaltal OECD.

Þegar undirfög náttúrufræðinnar eru borin saman kemur í ljós að íslenskir nemendur eru slakastir í líf- og vistfræði, næstbestir í eðlis- og efnafræði, en sterkastir í jarð- og stjörnufræði eftir því sem segir í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.

Þá hefur frammistaða nemenda eftir landshlutum hefur breyst á milli rannsókna. Vestfirðir, Norðurland eystra og vestra sýna bestu frammistöðu landshluta, en Austurland ásamt Reykjavík og nágrenni hrakar mest frá árinu 2000.

Niðurstöðurnar mikil vonbrigði

Menntamálaráðuneytið segir niðurstöðuna mikil vonbrigði. Ekki sé ásættanlegt að árangur íslenskra nemenda sé ekki betri, sérstaklega í ljósi þess mikla uppbyggingar- og þróunarstarfs sem átt hafi sér stað í skólum landsins á undanförnum áratug og þeirrar staðreyndar að fáar aðrar þjóðir verja jafn miklu fjármagni til grunnskólastigsins.

Telur ráðuneytið að skólayfirvöld, sveitarstjórnir, skólastjórnendur og kennarar þurfi að fara í saumana á þessum niðurstöðum og draga af þeim lærdóm. „Menntamálaráðherra treystir því að frumvörp til laga fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla, ásamt frumvarpi um kennaramenntun, sem nýlega voru lögð fram á Alþingi, skapi forsendur fyrir bættum árangri nemenda en þar er m.a. gert ráð fyrir lengingu kennaramenntunar og skilvirkara mati á skólastarfi," segir í tilkynningu menntamálaráðuneytisins

PISA-rannsóknin náði sem fyrr segir til 57 landa árið 2006. Hér á landi tóku allir grunnskólar og velflestir nemendur 10. bekkjar þátt í henni. Í könnuninni núna var sérstök áhersla á náttúrufræði þar sem reyndi á þekkingu nemenda á ýmsum sviðum raunvísinda, færni þeirra til að túlka vísindalegar staðreyndir og nota vísindaleg rök.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×