Skoðun

Á að leggja grunn­skólana niður?

Skúli Gunnarsson skrifar

Umræðan

Skólamál

Nú er ég reiður! Þetta er réttlát reiði og ég spyr í fullri alvöru: Ætla fræðsluyfirvöld að láta grunnskólann drabbast niður í ekki neitt á næstu misserum?

Síðast þegar kennarar reyndu að semja um kjör sín, gekk það líkt og oft áður; þeir mættu aðeins skilningsleysi og lítilsvirðingu. Þeir fóru í verkfall. Það vakti furðu mína í þessu verkfalli að heyra menntamála­ráðherra lýsa því yfir, að þetta mál kæmi henni ekkert við! Ég hef líklega gert mér rangar hugmyndir um störf ráðherra.

Svo tóku alþingismenn sig til og samþykktu lög þess efnis að kennarar yrðu að taka þeim smánarboðum sem fyrir lágu, eða taka því sem að þeim yrði rétt. Þetta var ljótur gjörningur, sem herti verulega þann hnút sem málin voru komin í, en leysti engan vanda. Mér fannst að nú bæri Alþingi siðferðileg skylda til að finna einhverja leið til frambúðar, en enn hef ég ekki orðið var við neitt slíkt. Hvernig ætlast alþingismenn til að ég og mínir líkar beri virðingu fyrir stofnuninni?

Jú, kennarar fóru til vinnu, sárir og reiðir, en margir gáfust upp og hættu kennslu. Það er mikill skaði að missa reyndan kennara úr starfi, en það virðast ráðamenn ekki skilja. En þetta var ekki nóg. Starfsskilyrði kennara versnuðu verulega mikið. Sú stefna er uppi að öllum nemendum sé blandað saman í bekki. Þar geta því lent saman börn, sem bíða eftir vistun á geðdeild (en þar eru langar biðraðir), einnig einhverf börn, ofbeldisfull, greindarskert, seinþroska o.s.frv.

Reyndar er ætlast til að aðstoðarmenn fylgi sumum þeirra, en það fást bara ekki menn í þetta vegna óviðunandi lágra launa. Niðurstaðan er því sú að kennurunum er ætlað að sjá um allt saman, en það er vitanlega ekki nokkrum manni ætlandi og kjaraskömmtunarmönnum til himinhrópandi skammar. Ég nefni hér eitt nýlegt dæmi:

Sérgreinakennari var að taka á móti 13 barna hópi, mjög blönduðum. Börnin voru í slagsmálum á ganginum og þegar inn var komið var atgangurinn slíkur að kennarinn fékk ekki við neitt ráðið og lá við stórslysum. Kennarinn kallaði á hjálp og til aðstoðar komu gangavörður, stuðningsfulltrúi og umsjónarkennari bekkjarins (sem er stór og stæðilegur karlmaður). Allan tímann gerðu þessir fjórir starfsmenn ekki annað en að forða því að ólátaseggirnir slösuðu hver annan, því engan má reka úr tímum og varla má kennari snerta nemenda svo að hann verði ekki sakaður um ofbeldi eða kynferðislega áreitni. Um kennslu varð ekki að ræða.

Hvernig haldið þið að samviskusömum kennara líði eftir svona tíma, þó maður nefni ekki bitsárin og marblettina. Það er eins og nemendur megi bíta, berja og sparka í kennara án þess að þurfa að óttast eftirmál. Haldið þið að kennaranum hafi verið boðin áfallahjálp?

Og hvað með fáein börn, sem hímdu úti í horni en tóku ekki þátt í óeirðunum. Eiga þau engan rétt? Þau komu til að keppast við að ljúka verkefnum sínum áður en önninni lýkur. Þarna misstu þau heilan tíma og það er aðeins einn tími í hverri viku, hálfan veturinn. Eiga ólátaseggirnir alltaf að fá að eyðileggja fyrir þeim sem vilja læra, vegna úrræðaleysis í skólakerfinu? Það er ekki von að kennarar geti unað þessum kjörum. Og það er reyndum kennara ekki sársaukalaust að hrekjast úr starfi. Að baki hverri uppsögn er mikil andleg þjáning.

Alþingismenn! Eruð þið til í að skipta á kjörum við grunnskólakennara?

Samningsmenn sveitarfélaga! Ætlið þið að bjarga grunnskólanum eða eyðileggja hann alveg?

Menntamálaráðherra! Hvar eiga börnin að fá grunninn undir framhalds- og háskólanám, ef enginn grunnskólakennari verður eftir í stéttinni?

Foreldrar! Kennarar vilja börnum ykkar vel! Styðjið þá í starfi, en spillið ekki fyrir, eins og því miður eru of mörg dæmi um.

Höfundur er faðir, afi og langafi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×