Innlent

Viðskiptaleg snilld að koma þekkingu Orkuveitunnar í verðmæti

Nýr meirihluti í borginni hefur engin áhrif á landsstjórnina. Þetta sagði Össur Skarphéðinsson að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun en hann telur það hafa verið viðskiptalega snilld að koma þekkingu Orkuveitunnar í verðmæti en ráðleggur þó nýjum meirihluta að selja hlut í REI að andvirði því sem Orkuveitan lagði í fyrirtækið í peningum og eignum.

Ríkisstjórnin kom saman til fundar í Ráðherrabústaðnum í morgun degi eftir að nýr meirihluti var myndaður í borginni. Össur Skarhéðinsson, iðanðarráðherra, sagði eftir fundinn að þar hefði ný staða í borginni ekki verið rædd. Borginni væri ekki stjórnað af ríkisstjórninni.

Aðspurður hvort hann teldi að rétt að borgin ætti fyrirtæki eins og REI sagðist Össur ekki hafa neinar hugmyndalegar efasemdir um það. „Ég tel það hafa verið viðskiptalega snilld að koma þessum óefnislegu verðmætum, þekkingunni og reynslunni innan Orkuveitunnar, með þessum hætti í verðmæti," segir Össur.

„Það er búði að leggja fram af hálfu borgarinnar 4,6 milljarða, hluturinn virðist vera 23 milljarða virði. Ef ég mætti ráðleggja félögum mínum í hinum nýja meirihluta í Ráðhúsinu þá myndi ég segja við þá: Upp úr áramótum er sennilega rétt að koma þessum upphaflegu fjárfestingum í skjól, það er að segja selja fyrir 4,6 milljarða. Þá er ekki hægt að segja að borgin sé í hættu með að tapa nokkru en hún á fasta 20 milljarða eftir og svo þegar tímar líða þá hugsa ég að menn losi um það með hægum og sígandi hætti," segir Össur enn fremur



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×