Innlent

Stærsta safn Deutsch-traktora á Íslandi

Elvar pantaði þennan Pontiac Chieftain, árgerð 1956, á eBay og borgaði 1,6 milljónir króna fyrir.
Elvar pantaði þennan Pontiac Chieftain, árgerð 1956, á eBay og borgaði 1,6 milljónir króna fyrir. Fréttablaðið/gva

Elvar Sigurgeirsson, vélaverktaki í Bolungarvík, hefur sankað að sér sautján Deutsch-dráttarvélum, tuttugu gömlum fólksbifreiðum og nokkrum vörubílum. Hann dreymir um að stofna tækjasafn í Bolungarvík og stendur fyrir fornbílasýningu í bænum um helgina.



Elvar er ekki nema 33 ára gamall en hefur safnað á fimmta tug dráttarvéla, fólksbifreiða og vörubíla. „Það eru ekki nema þrjú ár síðan ég byrjaði að safna fólksbílunum,“ segir hann. „Ég hef haft áhuga á Deutsch-dráttarvélum í nokkurn tíma og safnað þeim héðan og þaðan um landið. Eitt sinn þegar ég var að flytja einn traktorinn var mér boðinn bíll sem ég gat ekki afþakkað og síðan hefur þetta undið upp á sig.“



Elvar er með níu manns í vinnu og þegar hægist um hjá fyrirtækinu á veturna nýtir hann krafta þeirra til að gera upp dráttarvélar og bíla. „Þeir eru hvort eð er í vinnunni þannig það er eins gott að nýta þá í það.“ Hann er að leggja lokahönd á fimmtu Deutsch-dráttarvélina sem hann gerir upp og telur ótvírætt að hann eigi stærsta safn slíkra dráttarvéla á landinu. Spurður hvers vegna hann hafi svona mikinn áhuga á þessum tilteknu dráttarvélum er svarið einfalt: „Afi átti alltaf Deutsch.“



Elvar býr svo vel að eiga 1.200 fermetra skemmu þar sem hann geymir flesta bílana og dráttarvélarnar. Í bílasafninu gætir ýmissa grasa. Innan um Benz, Saab og Willis-jeppa blasir til dæmis við Lada Samara, sem Elvar segir hafa ótvírætt söfnunargildi. „Eftir fimmtán ár eða svo sjást þessir bílar ekki lengur á götum hér á landi.“ Sumir bílanna eru afar illa farnir. Elvar segir það sinn veikleika að rekist hann á bíl með sérstöðu geti hann ekki hugsað sér að honum sé fleygt. Suma fær hann gefins en aðra kaupir hann og gerir sér vonir um að geta gert þá alla upp með tíð og tíma. „Varahlutina er flesta hægt að fá á eBay og ég smíða ansi margt sjálfur. Öðruvísi væri þetta ekki hægt.“



Djásnið í safninu segir Elvar vera Pontiac Chieftain, árgerð 1956. sem hann pantaði af eBay og notar í spássitúra á sunnudögum. „Ég borgaði 1,6 milljónir króna fyrir hann og sé ekki eftir því,“ segir hann. Þótt hann hafi gert upp nokkrar dráttarvélar og sé kominn vel áleiðis með Benz-bifreið hvarflar ekki að Elvari að selja nokkuð af bílunum. Hann viðurkennir að þetta sé dýrt áhugamál en kona hans setji sig þó ekki upp á móti því. „Á móti kemur að ég smakka ekki áfengi, þannig það er kannski alveg eins hægt að eyða peningunum í þetta í staðinn. Um daginn fékk ég tilboð í Benzinn og bar undir hana og hún sagði þvert nei.“



Um helgina ætlar Elvar að bóna bestu bílana og halda fornbílasýningu, sem hann vonar að sé aðeins vísirinn að því sem koma skal. „Draumurinn er að koma upp tækjasafni hér í Bolungarvík einhvern daginn. Það á eftir að taka sinn tíma en rætist vonandi einn góðan veðurdag.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×